Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 7. 2011 | 15:00

Justin Rose verður ekki með í Dubai – „Fjölskyldan hefir forgang“

Justin Rose frá Englandi tekur ekki þátt í Dubai World Championship, sem hefst á morgun, vegna þess að von er á fjölgun í fjölskyldunni en kona hans, Kate, er að fara að eignast 2. barn þeirra. Fyrir eiga þau soninn Leo.

Á Twitter sagði Justin eftirfarandi: „Flýg heim til Orlando nú.” „Annað barnið fæðist bráðlega. Dapurt að geta ekki verið með í Dubai. Fjölskyldan hefir forgang.”

Justin tók þátt í Hong Kong Open nú s.l. helgi til þess að eiga kost á að koma til greina í Ryderbikarslið Evrópu en til þess verður hann að spila í 13 mótum. Eitthvað hefir hann verið annars hugar því hann komst ekki í gegnum niðurskurð.

Justin Rose er í 7. sæti peningalista Evrópumótaraðarinnar (Race to Dubai), en það gæti breyst vegna þess að hann tekur ekki þátt, því mörg stig eru í pottinum á mótinu í Dubai, sem og hátt verðlaunafé.