Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 10. 2016 | 12:00

Jordan Spieth ætlar að taka það rólega

Jordan Spieth mun ferðast minna á þessu keppnistímabili og hann segir að hann ætli að „taka það rólega“ þegar hann er í fríi.

Hinn 23 ára Spieth átti fremur vonbrigðatímabil skv. þeim kröfum sem hann gerir til sjálfs sín – náði „bara“ að sigra tvisvar á PGA Tour á sl. keppistímabili og eftirminnilegast af árinu 2016 hjá honum er líklega þegar hann „gaf frá sér“ sigur á Masters risamótinu eftir að hafa verið með 5 högga forystu fyrir lokahringinn.

Þetta virðist hafa setið í honum það sem eftir var ársins og kominn tími til að hann jafni sig.

Jafnvel frammistaða hans í Rydernum – þar sem Bandríkin unnu – var ekkert til að hrópa húrra fyrir – hann tapaði eftirminnilega í tvímenningnum á sunnudeginum 3&2 fyrir Henrik Stenson.

Markið var sett hátt eftir frábært keppnistímabil 2015 þar sem Spieth vann 2 risamót og 5 mót allt í allt þ.á.m. Tour Championship og  FedEx Cup.

Þetta hefir verið erfið dagskrá,“ sagði Spieth í viðtali við ESPN fyrr á árinu. „Og það sem ég hef lært er að ég ætla mér ekki að gormast fram og tilbaka frá Bandaríkjunum eins og oft og ég gerði. Það er bara erfitt.“

Spieth er samt skráður í Australian Open sem fer fram í næstu viku en mun ekki ferðast til Asíu eins oft á  2016-2017 keppnistímabilinu.

Hann er líka búinn að gera ráð fyrir meira fríi í dagskrá sinni þannig að hann geti endurhlaðið batteríin og komið aftur á teig í sem besta formi.

Ég vildi bara fá frí. Ég þarfnaðist hvíldar,“ sagði hann í viðtali við Golf.com. „Við sjáum bara til hvernig gengur héðan í frá (eftir Australian og the Hero World Challenge í desember).

Ég (Jordan Spieth) gæti hugsanlega gert meira, en ég vil taka því rólega og sjá hvað gerist. Ég þarfnast þeirra (ferðalaganna) ekki og sakna þeirra ekkert.“

Spieth er fyrrum nr. 1 á heimslistanum – en núverandi nr. 5 og núverandi nr. 1 er eins og allir vita Ástralinn Jason Day.