Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 9. 2011 | 10:00

Jóhann Friðbjörnsson endurkjörinn formaður GKB – Rekstrarhagnaður GKB 800 þús, 2011

Aðalfundur Golfklúbbs Kiðjabergs (GKB) var haldinn nú nýverið og á  heimasíðu GKB er nánar fjallað um fundinn. Þar segir eftirfarandi:

„Aðalfundur GKB var haldinn að Skipholti 70 þann 7. desember. Þar kom fram að hagnaður var af rekstri klúbbsins upp á tæpar 800 þúsund krónur. Reikningar og skýrsla stjórnar voru samþykktar samhljóða á fundinum, en velta klúbbsins nam tæpum 35 milljónum króna. Jóhann Friðbjörnsson var endurkjörinn sem formaður GKB sjöunda árið í röð.

Tvær breytingar voru á stjórninni. Úr stjórn gengu þeir Einar Örn Einarsson og Gissur Jóhannsson. Var þeim þökkuð góð störf fyrir klúbbinn á liðnum árum. Einar hafði verið í stjórn allt frá stofnun klúbbsins, eða í samtals 18 ár. Í stað þeirra koma Jenetta Bárðardóttir og Snorri Hjaltason inn í stjórnina.

Gerð var breyting á lögum klúbbsins þannig að nú er formaður kosinn sérstaklega á aðalfundi til eins árs í senn. Áður skipti stjórnin með sér verkum. Jafnframt eru gjaldkeri og ritari kosnir sérstaklega og gegnir ritari jafnframt stöðu varaformanns.

Félagar í GKB eru nú 327 talsins og er það svipað og á síðasta starfsári. Samþykkt var að hækka félagsgjöldin um 2.500 krónur frá í fyrra, nema hjá unglingum 18 ára og yngri þar sem gjaldið er óbreytt. Einstaklingar greiða nú 48.500 krónur í félagsgjald fyrir árið 2012, hjóngjaldið er 80.000 krónur og 18 ára og yngri greiða 15.000 krónur.

Alls voru 14.000 hringir spilaðir á Kiðjabergsvelli á árinu, sem er svipað og á síðasta ári.

Stjórn GKB árið 2012 er þannig skipuð:
1. Formaður til eins árs:  Jóhann Friðbjörnsson.
2. Ritari og varaformaður til tveggja ára:  Þórhallur Einarsson.
3. Gjaldkeri til tveggja ára:  Jenetta Bárðardóttir.
4. Meðstjórnandi  til eins árs:  Gunnar Þorláksson.
5. Meðstjórnandi til eins árs:  Snorri Hjaltason.

Varamenn  í stjórn:
Börkur Arnviðarson til tvegga ára og Ágúst Friðgeirsson til eins árs.

Endurskoðendur kosnir til eins árs:
Gunnar Dagbjartsson og Einar Örn Einarsson.“

Heimild: www.gkb.is