Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 13. 2014 | 13:00

Jeff Overton hent út af háskólakörfuboltaleik

PGA Tour kylfingurinn, Jeff Overton, sem spilaði golf með háskólaliði Indiana University í bandaríska háskólagolfinu er mikill aðdáandi körfuboltaliðs skólans The Hoosiers.

S.l. þriðjudag var Overton hent út af  Madison Square Garden í New York þegar The Hoosiers spiluðu við Louisville.

Overton sem útskrifaðist frá Indiana háskóla 2005 viðurkenndi á Twitter að honum hefði verið hent út, en eyddi síðan skilaboðunum.

Óljóst er af hverju  Overton var vikið út af Madison Garden.

Fyrir 3 árum lenti Overton í kasti við lögin vegna óláta á Hoosiers leik.  Eftir leik við lið Kentucky þann 14. desember 2011 var Overton handtekinn vegna ölvunar á almannafæri og óláta. Fyrr um daginn hafði Overton gefið fyrrum háskóla sínum $50,000 tékka.

Snemma næsta morgun (þ.e. kl. 3 um nóttina) stöðvaði lögregla för hans  þar sem hann var að hrópa ókvæðisorð að farþegum úr limmósínu sinni.  Lögreglan sagði að Overton hefði verið erfiður viðfangs og hefði neitað að sanna á sér deili og koma út úr bifreiðinni.  Lögreglan færði Overton úr bílnum og handtók hann, en Overton fannst lögreglan fara offari gegn sér.

Overton, sem þegar hefir komist í gegnum 4 af 5 niðurskurðum það sem af er  2014-15 PGA Tour tímabilsins, spilaði síðast á OHL Classic í Mayakoba.