Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 18. 2013 | 14:30

Jason Day missti ættingja í fellibyl

Fellibylurinn Haiyan sem geysaði um Filippseyjar hefir haft áhrif á líf hundruðþúsunda manna.

Skv. fréttamanni Herald Sun, Dwayne Grant, er ástalski kylfingurinn Jason Day meðal þeirra fjölmörgu, sem misst hafa ættingja í fellibylnum.

Day missti ömmu sína, móðursystur og 6 frændsystkini sín.

Önnur móðursystir Day komst lífs af, en bylurinn feykti henni til næsta þorps og enn önnur móðursystir hans og fjölskylda hennar komust lífs af með því að þau bundu sig föst við póst á háalofti húss þeirra.

Day sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu á CBS News:

„Ég er djúpt snortinn og sorgmæddur yfir að þurfa að staðfesta að fjölmargir ættingjar mínir hafa látið lífið í felllibylnum Haiyan. Fjölskylda mín og ég erum þakklát fyrir þá sem hafa sýnt samhug sinn og beðið fyrir okkur. 

Við erum niðurbrotin vegna þeirra,  sem hafa orðið fyrir þessum hræðilega harmleik. Meðan að við höfum skilning fyrir áhuga fjölmiðla á þessu efni og vonum að umfjöllunin geti veitt meðvitund um að þörf er á hjálp á Filippseyjum, þá vona ég að allir muni virða einkalíf fjölskyldu minnar á þessum erfiðu tímum. 

Ég mun ekki tjá mig meira  á þessari stundu. Biðjið fyrir öllum sem orðið hafa fyrir missi. Þakka ykkur fyrir.“ 

Það er erfitt að ímynda sér hvernig Day líður en kannski að golfið geti tekið huga hans frá harmleiknum í nokkrar klukkustundir.

Skv. Herald Sun er enn á dagskrá hjá Day að taka þátt í World Cup of Golf í Melbourne, sem hefst á fimmtudag. Jason Day verður í liði með Adam Scott f.h. Ástralíu.

Day hefir átt nokkrum velsældum að fagna nú í ár. Jafnvel þótt hann hafi ekki unnið mót, náði hann niðurskurði í öllum tilvikum og varð 7 sinnum meðal efstu 10, þar af í 3 risamótum þ.e. the Masters, U.S. Open og PGA Championship.

Það er þó ekki loku fyrir það skotið að hann muni spila í næsta móti sínu, dapur í bragði.