Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 10. 2011 | 12:30

Jarrod Lyle í 1. sæti eftir 1. dag Opna ástralska – Tiger spilaði á 68 höggum!

Það er heimamaðurinn Jarrod Lyle, sem er í 1. sæti eftir 1. dag Opna ástralska. Hann kom í hús á glæsilegum 65 höggum, -7 undir pari. Lyle spilaði skollafrítt, fékk 5 fugla og örn á par-5 14. brautinni. Höggi á eftir eru Bandaríkjamennirnir Nick Watney og Dustin Johnson og deila þeir því 2. sætinu. Í 4. sæti er Fred Couples ásamt 2 öðrum, en þeir komu í hús á -5 undir pari, 67 höggum hver.

 

Er Tiger kominn í gamla formið? Hann var að spila fantagott golf í dag!

Og þá er komið að fréttum dagsins: Tiger Woods var að spila frábært golf í dag! Hann kom inn á 68 höggum og deilir 8. sætinu eftir 1. dag með 5 öðrum kylfingum, þ.á.m. landa sínum Bubba Watson og áströlskum áhugamanni með því skemmtilega nafni Jake Higginbottom. Á skorkorti Tiger voru 4 fuglar og ekki nokkur einasti skolli. Frábært… og æðislegt að leiðindakynþáttaníð fyrrum kylfisveins hans, Steve Williams hafi ekki haft nein áhrif á hann!

Af Adam Scott og Steve Williams er það að frétta að Adam er  í 14. sæti ásamt 10 löndum sínum, þ.á.m. Jason Day og Bandaríkjamanninum John Cook.  Allir í 14. sæti spiluðu á 69 höggum, þ.e. -3 undir pari. Skorkort Adams var heldur betur skrautlegt í dag, en skrautfjöðurin á því var glæsilegur albatros sem Adam fékk á par-5, 8. brautinni (að öðru leyti fékk hann fjóra skolla og fjóra fugla). Glæsilegur albatros hjá Adam Scott!

Stöðuna eftir 1. dag á Opna ástralska má sjá með því að smella HÉR: