Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 27. 2013 | 23:30

Jamie Donaldson kylfingur ársins í Wales

Jamie Donaldson hefir bætt annari rós í hnappagatið á fínu ári sínu, en hann var valinn kylfingur ársins af golfsambandi Wales.

Árið hefir verið Donaldson, sem fæddur er í Pontypridd gott, en hann hóf 2013 á því að skjóta Tiger, Rory og fleirum ref fyrir rass með því að sigra á Abu Dhabi Championship í janúar. Eins varð hann í 2. sæti á Turkish Airlines Open og átti nokkra topp-10 árangra.

Donaldson varð nr. 5 á peningalista Evrópumótaraðarinnar og er búinn að vinna sér inn meira en £2 milljónir.

Jim, faðir Jamie Donaldson tók við verðlaununum fyrir hönd sonar síns en Jamie var vant við látinn að fylgjast með fæðingu annars barns síns, dótturinnar Isla Harriett. Jamie Donaldson er sem stendur nr. 26 á heimslistanum og í mjög góðri stöðu að komast í Ryder Cup lið Evrópu.

„Áður en sonur hans Max fæddist var hann farinn að vinna sér inn € 150.000, næsta ár vann hann sér inn 1,3 milljónir og nú við fæðingu dóttur sinnar vann hann sér inn vel yfir 2 milljónir,“ sagði stoltur faðirinn Jim Donaldson þegar hann tók við verðlaununum fyrir hönd sonar síns. Við gerum okkur vonir um jafnvel enn stærra ár á næsta ári. Hann hefir alltaf verið seinn að hlutunum, gerðist ekki atvinnumaður fyrr en 25 ára, hann lék í 255 mótum án sigurs en hefir síðan þá eflst.“