Ragnheiður Jónsdóttir | október. 23. 2011 | 10:00

Jákvæðni Christinu Kim

Kóreansk-ameríski kylfingurinn Christina Kim, þrefaldur sigurvegari á LPGA, komst í fréttirnar þegar hún sigraði Opna sikileyska sunnudaginn fyrir hálfum mánuði, 9. október 2011.  Þetta var fyrsti sigur Christinu (sem hér verður skammstöfuð CK) á Evrópumótaröð kvenna (ens. Ladies European Tour, skammst. LET).

Þess mætti geta að umboðsmaður CK er Chubby Chandler, sem mikið hefir verið í fréttum s.l. viku vegna missis hans á frægum umbjóðendum, þ.e. þeim Ernie Els og nú síðast Rory McIlroy. CK heldur fast í Chubby, en þau kynntust í gegnum Twitter.

Christina Kim

CK fæddist 15. mars 1984 og er því 27 ára. Hún er sem ferskur andblær á þeim alþjóðlegu golfmótum sem hún tekur þátt í og er aldrei hrædd við að sýna tilfinningar sínar.  Hún er hressileikinn holdi klædd, sem hvirfilstormur hvar sem hún fer en undir yfirborðinu er ljúf stúlka, sem er gott að eiga að vin á golfvellinum.Þrátt fyrir yfirgengilega hegðun á stundum og mikla tilfinningasemi talar hún t.a.m. ekki niður til félaga sinna á túrnum eða reynir að taka þá á taugum með stælum í keppnum, s.s. sumum kylfingum er eiginlegt að gera.

Það var CK sem varði Michelle Wie, þegar hún var gagnrýnd fyrir að keppa á karlamótum. Um það sagði CK: „Hún þurfti ekki á því að halda á þessu augnabliki – hún þarfnaðist alls þess stuðnings sem hún gat fengið.” CK kynntist Michelle, þegar þær spiluðu saman í Kraft Nabisco risamótinu í Palm Springs, þegar Michelle var bara 13 ára. Michelle lauk keppni meðal 10 efstu.  CK og Wie eru vinkonur, feður þeirra voru t.a.m. í sama háskólanum í Seúl. Þær voru líka lið í Solheim Cup 2009 og um þá skipan sagði CK m.a.: „Fjórboltinn var rétta leikformið fyrir okkur, ég setti niður pörin og lét Michelle um töfranna. Við getum öll slegið frábær högg af og til en Michelle bara útfærir þau 95% betur en aðrir. Ég hafði gaman af því að fylgjast með hvernig hún spilaði og hvernig áhorfendum líkaði við hana.”

Kim og Wie

Það var CK sem varði Carolyn Bivens sem hrakin var úr stóli framkvæmdastjóra LPGA, m.a. vegna neikvæðra ummæla sinna um kóreanska kvenkylfinga; CK sagði að Bivens hefði „framtíðarsýn.” Ekkert hefði verið auðveldara fyrir CK en að slást í hóp þeirra sem hötuðust við Bivens vegna þess að hún mælti svo fyrir að ef kóreanskar stúlkur á (LPGA) túrnum lærðu ekki ensku almennilega yrðu þær sektaðar. CK fannst alls ekki slæmt að kóreönsku stúlkurnar væru beðnar um að læra ensku almennilega og fannst Bivens hafa ákveðna „framtíðarsýn.” „Ég held bara að eitthvað hafi slegið saman í því hvernig það sem hún meinti var túlkað,” sagði CK.

Síðast en ekki síst er minnisstætt hvernig CK hvatti Catrionu Matthews áfram síðasta spöl þeirra á Ricoh Women´s British Open, 2009, þegar hin feimna, skoska Catriona vann þetta stórmót. CK segir sig einlægan aðdáanda Catrionu, þar sem hún reyni m.a. aldrei að draga að sér athygli fyrir neitt annað en frábært golfspil. Þegar Catriona vann vildi CK meira fyrir skoska séníið sitt, og hvatti áhorfendur til að klappa, sem þeir og gerðu. Þar með gerði CK sigurstundina ógleymanlega fyrir vinkonu sína.

Erica Blasberg

Það er ástæða fyrir jákvæðni CK; m.a. kenndu foreldrar hennar að það væri tilgangslaust að vera með neikvæðar tilfinngar gagnvart annarri manneskju, ekki hvað síst vegna þess að það breytir ekki neinu, en einnig af því að CK varð sjálf fyrir neikvæðri reynslu þegar hún var að taka sín fyrstu skref á (LPGA) túrnum, þá sem áhugamaður. Eldri kvenkylfingur var með allskyns leiðindakomment um hana á golfvellinum, þannig að hún var tárum nær „og það” sagði CK „er nokkuð sem ég óska engri annarri.”

Hún sagði að sem betur fer hefði hún líka kynnst frábærum atvinnukylfingum, þ.á.m „þessari fallegu, ljóshærðu stelpu sem fór úr vegi sínum til þess að láta mér líða vel.” Þessi stelpa var Erica Blasberg, sem með sorglegum hætti framdi sjálfsmorð á síðasta ári. „Hún var svo yndisleg” sagði CK. „Ég ákvað að hún yrði fyrirmynd mín og svo mun áfram verða.”

CK er líka mikill aðdáandi Lauru Davies. „Laura VAR kvennagolfið svo árum skipti. Hún er þekktari en Annika. Hún hefir þessa golfástríðu og allir elska hana til dauða. Hamingjan veit af hverju hún er ekki komin í frægðarhöll kylfinga fyrir löngu. Ef einhver ætti að vera þar þá er það hún,” sagði CK að lokum.

Heimild: Women & Golf maí/júní 2011