Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 2. 2013 | 11:45

Jaidee og Jiménez fyrirliðar í EvrAsíuliðakeppni

Það eru Thongchai Jaidee frá Thaílandi og Miguel Angel Jiménez sem eru fyrirliðar í EvrAsíu Cup sem fram fer á næsta ári.

EvrAsíu Cup er keppni milli liða úrvalskylfinga frá Asíu og Evrópu þar sem byggt er á Ryder Cup fyrirkomulaginu.

Mótið fer fram í Glenmarie Golf and Country Club í Kuala Lumpur, Malasíu, dagana 27.- 29. mars 2014.

Thongchai hefir þrívegis verið efstur á peningalista Asíutúrsins og hefir sigrað á 16 atvinnumótum, þ.á.m. hefir hann sigrað 5 sinnum á Evrópumótaröðinni og tvisvar á Malaysian Open. Hann er fyrrum hermaður í tælenska hernum.

Hann sagði m.a. um útnefningu sína sem fyrirliði: „Þetta er mér heiður og ég er ánægður að vera fyrirliði Team Asia. Viku eftir viku keppum við sem einstaklingar en EvrAsíu Cup styrkt af DRB-HICOM veitir okkur tækifæri að leika leikinn öðruvísi,“ sagði Jaidee og bætti við: „Ég er mikill aðdáandi Ryder Cup, en þar sem ég er frá Asíu fæ ég aldrei að taka þátt. EvrAsíu Cup er tækifæri fyrir bestu kylfinga Asíu og Evrópu að mætast og ég hlakka til að leiða ákveðna asíska kylfinga, sem eru tilbúnir til að gera sitt besta fyrir heiður og stolt liðsheildarinnar. Ég er viss um að þetta verður skemmtileg keppni og ég reyni að undirbúa asíska liðið eins vel og hægt er.“

Jiménez stýrir liði Evrópu. „Vélvirkinn“ eins og Jiménez er nefndur vegna ástar sinnar á hraðskreiðum bílum, hefir spilað í 28 ár á Evróputúrnum og sigrað 19 sinnum.

Hann er líka þekktur fyrir að lika við vindla og ljúfa lífið, en færir liði Evrópu mikla reynslu. Sem leikmaður hefir hann m.a. keppt í 4 Ryder bikarsmótum þ.á.m. var hann í Ryder bikarsliðinu sem sigraði árið 2004 á Belfry og 2010 á Celtic Manor. Hann var varafyrirliði liðsins í „undrinu í Medinah“ á síðasta ári og því vel kominn að því að vera fyrirliði Evrópu í Malasíu á næsta ári.

Jiménez sagði m.a. eftir að hann hafði verið útnefndur fyrirliði: „EvrAsíu Cup sem styrkt er af DRB-HICOM er spennandi mót og ég get ekki beðið eftir að komast til Malasíu á mótið,“ sagði hann. „Við í Evrópu spilum við lið Bandaríkjanna í Ryder bikarnum og það er frábært að hafa núna keppni þar sem lið Evrópu keppir gegn liði Asíu.  Þar sem svo margir góðir heimsklassa kylfingar eru að koma upp í Asíu núna þá verður keppnin eflaust jöfn.“