Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 8. 2013 | 10:00

Jack Nicklaus hannar völlinn fyrir Australian Open 2014

Jack Nicklaus tilkynnti að The Australian Golf Club, þar sem hann vann 3 af 6 Australian Open titlum sínum, muni halda Australian Open mótið árið 2014, eftir að 18 holu keppnisvöllur klúbbsins hefir verið tekinn í gegn af honum.

Nicklaus hefir nefnilega verið ráðinn til að endurhanna keppnisvöll klúbbsins.

Australian Open fór fyrst fram á velli klúbbsins árið 1904 og mótið var síðast haldið þar árið 2007, þegar Craig Parry vann.

Nicklaus sem vann Australian Open í The Australian árin 1975, 1976 og 1978 aðstoðaði einnig við endurhönnun vallarins 1977 og 1980 þegar vatnshindranir voru m.a. lengdar.

Í ár fer Australian Open fram 4. árið í röð í The Lakes, í Sydney, einhvern tímann í desember en eftir er að ákveða nánari dagsetningu. Það er ástralski kylfingur Peter Senior, sem á titil að verja í ár.