Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 10. 2012 | 10:30

Íþróttamenn ársins hjá GSÍ: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Ólafur Björn Loftsson, NK

Á hverju ári velja sambönd tiltekinna íþróttagreina, íþróttamenn ársins innan sinna vébanda. Að höfðu samrráði við afreksnefnd GSÍ valdi Golfsamband Íslands þau Ólafíu Þórunni Kristinsdóttir, GR og Ólaf Björn Loftsson, NK,  kylfinga ársins 2011. Kylfingar ársins hjá GSÍ  2010 voru: Birgir Leifur Hafsteinsson, GKG og Tinna Jóhannsdóttir, GK.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Wake Forest. Mynd: gsimyndir.net

Ólafía Þórunn, GR var að mati stjórnar GSÍ valin kvenkylfingur ársins 2011. Ólafía Þórunn er þrefaldur Íslandsmeistari, í höggleik, holukeppni og með  kvennasveit GR í sveitakeppni GSÍ 2011. Eins varð Ólafía Þórunn klúbbmeistari GR, 2011. Ólafía stundar nám og spilar með golfliði eins sterkasta háskólaliðs í Bandaríkjunum, Wake Forest.  Hún spilaði ekki í öllum mótum Eimskipsmótaraðarinnar í sumar, en varð samt í  2. sæti á stigalistanum. Ólafía Þórunn er í afrekskylfingahóp GSÍ 2012.

Ólafur Björn, NK, hlýtur titilinn kylfingur ársins. Ólafur  átti frábært ár 2011, þegar hann varð fyrstur íslenskra kylfinga til þess að spila á sterkustu golfmótaröð heims, PGA mótaröðinni.  Hann hlaut þátttökurétt á Wyndham mótinu á PGA mótaröðinni eftir sigur í Cardinal mótinu, sem er eitt sterkasta áhugamannamót, sem haldið er. Jafnframt varð Ólafur Björn klúbbmeistari Nesklúbbsins 2011 og á sæti í 4 manna úrvalsliði landsliðsþjálfarans, Team Iceland 2012.