Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 26. 2012 | 22:30

Íslandsmótið í höggleik – Rúnar Arnórsson um 1. hringinn: „Þetta gekk fínt og hnökralaust“

Rúnar Arnórsson, GK, leiðir eftir 1. hring Íslandsmótsins í höggleik, lék í dag á 66 höggum.  Rúnar fékk 5 fugla og 1 skolla á hringum.  Golf 1 tók örstutt viðtal við forystumann 1. dags:

Golf 1: Til hamingju Rúnar, með daginn í dag!!!

Rúnar: Takk fyrir, 1/4 hluti mótsins búinn.

Golf 1: Hvernig er tilfinningin eftir hringinn í dag?

Rúnar: Hún er mjög góð. Þetta gekk fínt og hnökralaust fyrir sig. Ég var í engu veseni og ef það kom upp tók ég á því eins og hverju öðru verkefni.

Golf 1: Hvernig fannst þér Strandarvöllur í dag?

Rúnar: Hann hefur tekið miklum framförum. Ég spilaði völlinn síðast fyrir 10 dögum og satt að segja leist mér ekkert á hann þá. En eftir rigningarnar og eftir að búið er að slá völlinn, þá er hann fínn. Við Signý spiluðum líka í roki og það hafði sitt að segja, lukkan gat ráðið hvort maður fékk gott skopp eða ekki. En hann er mun betri núna eftir rigninguna.

Golf 1: Hvað gerðist eiginlega á 14. braut? (En á þá braut, sem er par-4 og erfiðasta braut vallarins fékk Rúnar skolla)

Rúnar: Ég sló drævið mitt illa, en var samt ekki nema 130 metra frá flöt. Vindurinn rífur síg upp og ég slæ í pínu flýti fyrir ofan greenið í móann. Þaðan og í legunni sem ég var í, var erfitt að slá, þannig að ég fékk skolla.

Golf 1: En þú fékkst líka 5 fugla, geturðu talað aðeins um þá?

Rúnar: Já, varðandi fuglinn á 2. braut (par-3) þá munaði minnstu að ég slægi hann í rafmagnlínu. Ég setti teighöggið 2 metra frá pinna og setti púttið niður.  Á 7. braut (par-4) tók ég 3-tré á teig og pitchaði 7 metra frá pinna og tókst að setja púttið niður.  Næsti fugl kom á 10. braut. Þar drævaði ég við hliðina á flagginu og þetta var bara „tap-in birdie.“ Á 12. braut (par-4) drævaði ég yfir greenið, átti þægilegt vipp og síðan bara 1 1/2 metra pútt (Innskot: þetta var á flötinni sem hallar öll og mörgum er illa við að pútta á). Síðasti fuglinn kom síðan á par-5 15. brautinni.  Þar tók ég dræver á teig og síðan setti hann síðan með 3-járni í bönker fyrir framan flöt.  Höggið upp úr slóst í stöng og munaði minnstu að hann færi í og þá átti ég bara eftir stutt pútt.

Golf1: Takk fyrir Rúnar – Gangi þér vel á morgun!