Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 25. 2012 | 10:25

Íslandsmótið í höggleik hefst á morgun! – Anna Sólveig: „Erfitt að segja til um sigurvegara í kvennaflokki!“

Á morgun hefst Íslandsmótið í höggleik á Strandarvelli hjá GHR. Biðlistar hafa myndast inn í mótið, en meðal keppenda eru 27 í kvennaflokki og 123 í karlaflokki, alls 150 þátttakendur.  Ein þeirra, sem tekur þátt, er Anna Sólveig Snorradóttir, GK.  Golf 1 lagði nokkrar spurningar fyrir Önnu Sólveigu:

Golf 1: Hvernig leggst Íslandsmótið í höggleik í þig?  

Anna Sólveig: Bara mjög vel, þetta verður mjög skemmtilegt og spennandi.

Golf 1: Hvernig finnst þér Strandarvöllur?  

Anna Sólveig: Hann er í mjög góðu standi.  Mér finnst hann frekar erfiður en mjög skemmtilegur.

Golf 1: Hvaða líkur telur þú á að Keiliskona standi uppi sem sigurvegari í kvennaflokki og hver telur þú að það verði?

Anna Sólveig: Miðað við hvað eru margar Keiliskonur að keppa þá eru bara mjög miklar líkur á því að einhver þeirra vinni, en hver það verður er erfitt að segja.

Golf 1: Hvað þarf til, til þess að sigra á Íslandsmóti, að þínu mati?

Anna Sólveig: Maður þarf að vera mjög góður í golfi og þarf að þekkja völlinn vel og kunna á hann og sjálfstraustið og einbeitingin verða að vera í lagi.