Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 6. 2022 | 22:00

Íslandsmótið 2022: Hulda Clara og Sigurður Bjarki jöfnuðu vallarmetin á Vestmannaeyjavelli

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, lék á 65 höggum eða 5 höggum undir pari. Það er langbesti hringur Huldu Clöru á mótinu – en hún hefur titil að verja. Hulda Clara fékk fimm fugla, tapaði ekki höggi, og hún fékk 13 pör. Hún jafnaði vallarmetið sem Anna Sólveig Snorradóttir, GK, setti árið 2018n á Íslandsmótinu í golfi.

Sigurður Bjarki Blumenstein deilir nú vallarmetinu með liðsfélaga sínum úr GR, Haraldi Franklín Magnús, sem lék á 62 höggum á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum árið 2018. Sigurður Bjarki fékk alls 9 fugla og þar af 6 á fyrri 9 holunum sem hann lék á 29 höggum. Hann tapaði einu höggi, á 17. braut, þar sem hann fékk skolla.

Fyrir lokahringinn er Hulda Clara T-7 búin að spila á samtals 13 yfir pari (77 81 65), en eins og sjá má eru miklar sviptingar í spili hennar t.a.m. 16 högga munur milli hringja hjá henni. Evrópumeistarinn, Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, leiðir fyrir lokahringinn á samtals 1 undir pari og er sú eina af konunum á heildarskori undir pari.

Sigurður Bjarki er hins vegar T-2 og á góða möguleika enn á sigri, er aðeins 2 höggum á eftir forystumanninum fyrir lokahringinn, Kristjáni Þór Einarssyni, GM, á samtals 4 undir pari.

Sjá má stöðuna fyrir lokahringinn með því að SMELLA HÉR: