Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 24. 2013 | 18:00

Innsetning Pierre Bechmann sem formanns R&A – Myndskeið

Til málþings GSÍ, sem bar yfirskriftina „Golf sem lífstíll“ var boðið frönskum formanni R&A 2012-2013, Pierre Bechmann,  sem hélt langa og ítarlega ræðu um starfsemi R&A allt frá upphafi.  Hann er  fyrsti formaður R&A frá meginlandi Evrópu.

Pierre Bechmann á Íslandi, 22. nóvember 2013. Mynd: Golf 1

Pierre Bechmann á Íslandi, 22. nóvember 2013. Mynd: Golf 1

Bechmann er 56 ára lögmaður frá París, fæddur 18. janúar 1957. Hann þykir afar snjall lögmaður. Segja má að Bechmann sé fæddur með silfurskeið í munni og fjölskyldu sem spilar golf.  Hann hefir allt frá 17 ára aldri ferðast á hverju ári til St. Andrews í Skotlandi til þess að spila golf og má því segja að hann hafi heillast ungur af þeim stað, þar sem hann hefir undanfarið ár gengt almestu virðingarstöðu í vöggu golfsins.

Fyrir utan það að vera félagi R&A, er hann félagi í Augusta National og Morfontaine golfklúbbnum í París (sjá kynningu Golf 1 á Morfontaine með því að SMELLA HÉR) auk þess sem hann var um árabil formaður Chantilly golfklúbbsins í Frakklandi, en hann fæddist nánast á Chantilly golfvellinum (sjá kynningu Golf 1 um Chantillly golfklúbbinn með því SMELLA HÉR:)

Það hefir verið sagt um Bechmann, sem er með 9 í forgjöf, að ekki sé sérlega gaman að spila golf með honum, þar sem ekki sé hægt að ganga 3 skref án þess að einhver heilsi honum eða vilji tala við hann, sama hvorum megin Atlantsála hann er. Það kemur ekki á óvart enda Bechmann vingjarnlegur,  framúrskarandi gentilmaður í allri framgöngu og að sögn afar vinmargur á golfvöllum um allan heim.  Það sem vekur sérlega athygli er hversu frábæra og lýtalausa ensku hann talar, vottar ekki í það minnsta fyrir frönskum hreim.

Það má e.t.v. best sjá í þessu franska myndskeiði frá innsetningu Bechmann í formannssstöðu R&A SMELLIÐ HÉR: 

(Kynningin er á frönsku en Bechmann tekur til máls á ensku öfugt við í enska myndskeiðinu niðri).

Eftir að hafa greint íslenskum málþingsgestum frá helstu áföngum í sögu R&A, en meðal þeirra er að R&A golfklúbburinn var stofnaður 1754 og verður því 260 ára á næsta ári. Árið 1897; R&A fyrst viðurkennt sem reglusetningarvald í golfinu um allan heim 1897; fyrsta reglubókin kom út 1899; fyrstu reglurnar um golfútbúnað voru settar 1909 o.s.frv. þá greindi Bechmann frá skemmtilegri hefð í St. Andrews sem nefnist „The Drive in (of a new Captain).“  Hún gengur út á það að formaðurinn verðandi verður að láta tía upp fyrir sig og slá síðan högg af 1. tegi og kylfusveinar St. Andrews storma síðan út á völl og keppast um að finna bolta kapteinsins og færa honum aftur. Um leið og högg kapteinsins ríður af er skotið úr fallbyssu!

Bechmann sagðist sjaldan hafa verið eins stressaður og þegar hann sló höggið góða við innsetningu sína í september 2012 og sagði að bolti sinn hefði flogið 196 metra í lofti og rúllað eitthvað lengra.

Hér má sjá myndskeið af innsetningu Pierre Bechmann í stöðu formanns R&A SMELLIÐ HÉR: