Ingvar Andri Magnússon, GR.
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 15. 2017 | 02:00

Leiðrétt frétt: Ingvar Andri lauk keppni í 5. sæti og Daníel Ísak varð T-36 á Scottish Boys Open!

Þrír íslenskir kylfingar Ingvar Andri Magnússon, GR; Daníel Ísak Steinarsson GK og Dagbjartur Sigurbrandsson, GR tóku þátt í Scottish Boys Open Championship (á íslensku nefnt Opna skoska meistaramótið u. 18 ára).

Mótið fór fram á Monifieth linksaranum, dagana 12. -14. apríl og lauk í gær.

Skorið var niður eftir 2 hringi og komst Dagbjartur, sem var meðal yngstu keppenda, aðeins 14 ára, ekki í gegnum niðurskurð, meðan Ingvar Andri og Daníel Ísak fóru í gegn.

Ingvar Andri var reyndar í 1. sæti fyrstu tvo keppnisdagana og Daníel Ísak var í 2. sæti 1. dag;  en fór niður skortöfluna 2. daginn eftir hring upp á 9 yfir pari, 80 högg.

Þriðja og síðasta dag voru spilaðir 2 hringir og voru mistökin þau að skrifuð var úrslitafrétt eftir 3. hring. Beðist er velvirðingar á því og hefir það nú verið leiðrétt.

Ingvar Andri lauk keppni í 5. sæti með skor upp á samtals 5 yfir pari, 289 högg (69 73 73 74).

Daníel Ísak varð T-36 þ.e. jafn 5 öðrum keppendum í 36. sæti með skor upp á samtals 25 yfir pari, 309 högg (70 80 82 77).

Glæsilegur árangur hjá íslensku keppendunum 3!

Sigurvegari mótsins varð Skotinn John Paterson, úr New Golf Club St. Andrews, en hann lék á samtals 1 undir pari, 283 höggum (73 71 72 67).

Sjá má lokastöðuna á Scottish Boys Open Championship með því að SMELLA HÉR: