Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 11. 2014 | 20:30

Ingunn í sama háskóla og Obama

Á heimasíðu GKG er að finna eftirfarandi gleðifrétt (höfundur Úlfar Jónsson): 

Ingunn fer í sama háskóla og Obama forseti

Ingunn Gunnarsdóttir, afrekskylfingur úr GKG, og meðlimur í afrekshópi GSÍ, fékk inngöngu nú nýlega inn í Columbia háskólann, sem er á Manhattan eyju í New York. Columbia háskólinn er einn af elstu og virtustu skólum Bandaríkjanna. Margir öflugir einstaklingar hafa stundað nám við þennan skóla, þ.á.m. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Ingunn er að ljúka BA námi í Furman háskólanum, og hefur leikið með golfliði skólans þar undanfarin ár.

Hvernig kom það til að þú sóttir um í Columbia skólann?

„Ég sótti um þetta nám í mikilli bjartsýni, hélt í raun að það væri ekki möguleiki á að ég kæmist inn! Flestir umsækjendur eru yfirleitt með nokkurra ára starfsreynslu og einungis 5-10% umsækjenda komast inn beint út undergraduate námi.“

Hvar er skólinn metinn námslega?

„Columbia háskólinn sjálfur er metinn sem fjórði besti háskólinn í Bandaríkjunum. Námið sem ég sótti um er bæði hjá SIPA og the Earth Institute hjá Columbia. SIPA (School of International and Public Affairs) er talinn einn besti skóli í heiminum í alþjóðlegum fræðum. The Earth Institute er metinn sem fimmta besta „earth science“ námið í Bandaríkjunum. Síðan er Columbia metinn sem þriðji besti skólinn í Environmental Policy and Management kennslu.“

Hvað komast margir inn í námið?Furman_mynd_6

„Ég held að það séu um 50-60 nemendur sem komast inn ár hvert, er ekki búin að kynna mér það almennilega. En ég veit alla vegana að það eru bara örfáir sem komast inn beint úr undergraduate námi. Svo hafa allir kennararnir mínir hérna úti sagt mér að þetta sé einn af erfiðustu skólum að komast í.“

Hvenær sóttirðu um?

„Ég sótti um í byrjun febrúar. Ég rakst á bækling um þetta nám örfáum dögum fyrir umsóknarfrestinn og daginn áður en ég var að fara til Florida á fyrsta mót ársins. Ég ákvað að drífa bara í því að sækja um þannig ég sat niðri í “lobbýi” öll kvöld að reyna að klára þessa umsókn og náði að skila henni inn um klukkustund fyrir skilafrestinn! Það hjálpaði líka að hafa pabba þarna til að lesa yfir ritgerðinar mínar.“

Hver eru skólagjöldin?

„Þau eru himinhá, um $70,000 held ég. En vonandi get ég nælt mér í einhverja styrki og svona þar sem ég er komin inn núna.“

Furman_mynd_1

Hvaða nám ertu að fara í?

„Ég er að fara í eins árs Mastersnám en gráðan sem ég mun útskrifast með er kölluð Master of Public Administation í Environmental Science and Policy.”

Í því sem er kallað mission statement, sem má kannski þýða sem tilgangslýsingu skólans um námið, segir efnislega eitthvað á þennan veg: Masters námið okkar er heilt samfellt ár og í því er lögð áhersla á samþætta hugsun og menntun, þannig að þeir sem útskrifast frá okkur fái yfirsýn og öðlist getu til þess að takast heildstætt og þverfaglega á við umhverfisvandamál, í stað þess að nálgast þau frá þröngu og brotakenndu sjónarhorni. Markmið okkar er að þróa nýtt fag um stjórnun umhverfismála sem hafi þann tilgang að stuðla að því að jörðin geti fóstrað líf varanlega.

Geturðu stundað golf með náminu?

„Vonandi! Þjálfarinn minn hérna í Furman þekkir þjálfarann hjá Columbia þannig ég ætla að reyna að hafa samband við hana og spyrja hvort að ég geti fengið hugsanlega að æfa mig eitthvað þar eða jafnvel aðstoða með liðið. En það er bara hugmynd, veit ekki einu sinni hvort ég muni hafa tíma til þess.“

Hvaða „frægir“ einstaklingar hafa útskrifast úr skólanum?

„Fyrsti sem kemur í hugann er Obama Bandaríkjaforseti. Á Wikipedia er langur listi yfir fyrrum nemendur SIPA og þar stendur m.a. að fimm af stofnendum Bandaríkjanna („founding fathers“) hafi stundað nám þar, sem og þrír forsetar og þó nokkrir Nóbelsverðlaunahafar.“

Furman_mynd_2

Þegar þú lítur til baka yfir árin sem þú hefur verið í skóla í USA, hvað stendur uppúr?

„Allir vinirnir sem ég hef eignast hérna eru klárlega það sem stendur upp úr hjá mér og öll ferðalögin sem ég hef farið vítt og breytt um Bandaríkin með golfliðinu. Svo mun ég örugglega muna eftir því hvað það var alltaf alveg fáránlega mikið að gera og hversu dauðþreytt ég var yfirleitt, þá sérstaklega núna lokaönnina mína.“

Mælirðu með þessari leið fyrir íslenska kylfinga og námsmenn?

„Ég mæli eindregið með þessari leið. Mér finnst hins vegar oft fara á mis hjá íslenskum kylfingum sem hafa áhuga á að fara út að hugsa um það hvernig skóla það vill stunda nám við og hvar skólinn er. Yfirleitt er áherslan einungis á því að komast inn í ágætis golflið og fá einhvern styrk út á golfið. Ég tel hins vegar að námið, skólinn og jafnvel staðsetning skólans skipti höfuðmáli. Fyrsta árið mitt hérna úti þá var ég í Texas með fullan námsstyrk að keppa í D1 mótum. En skólinn var ekki góður og mér leið ekki vel í Texas. Núna er ég í Furman sem er topp háskóli í mjög fínum bæ og mér finnst frábært hérna. Svona fyrst maður er á annað borð að fara í skóla, af hverju ekki að fá góða menntun út úr því? Ég náði alla vegana að nýta mér það að vera ágætis kylfingur og námsmaður til að fá fullan námsstyrk í góðum háskóla sem leiddi til þess að ég er að fara í einn besta háskóla í heiminum.“

Hvaða áhrif mun þetta hafa á golfið hjá þér að hefja nám í þessum skóla?

„Námið hefst í maí og stendur yfir í eitt ár. Ég næ því líklega nánast ekkert að spila golf næsta árið, hvað þá keppa. Vonandi mun ég geta keppt þegar ég er útskrifuð úr þessu námi og hugsanlega spilað mig aftur inn í landsliðið.“

Við óskum Ingunni til hamingju og alls hins besta í framtíðinni. Hún er svo sannarlega öðrum til mikillar fyrirmyndar.