Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 18. 2011 | 09:00

Ian Poulter sigraði á JBWere Australian Masters

Margir höfðu beðið spenntir eftir einvígi heimamannsins Geoff Ogilvy, sem að sögn hefir spilað Victoria golfvöllinn í Melbourne oftar en nokkurn annan völl í heiminum og Englendingsins Ian Poulter. Ljóst varð þó á 1. holu að ekkert yrði af einvíginu því strax þar missti Ogilvy 2 högga forystu sína  þegar Poulter fékk örn og má segja að Ian Poulter hafi síðan verið yfir það sem eftir var hringsins.

Ian Poulter með verðlaunagrip Australian Masters.

Ian Poulter spilaði á 67 höggum í dag á hring þar sem hann fékk m.a. örn á 1. braut, 3 fugla og 1 skolla. Samtals var sigurskorið upp á – 15 undir pari, 269 högg (65 68 69 67). Ian var með engan hring yfir 70.

Í 2. sæti varð Ástralinn Marcus Fraser á samtals -12 undir pari, 272 höggum (72 69 69 64). Hann var því 3 höggum yfir öruggu sigurskori Poulter, en átti lægsta skor dagsins glæsileg 64 högg! Á skorkorti hans voru hvorki fleiri né færri en 8 fuglar, en því miður líka 1 skolli á 3. brautinni.

Loks varð Geoff Ogilvy í 3. sæti spilaði í dag versta hring sinn í mótinu upp á 73 högg, +2 yfir pari: martraðarlokahring, þar sem hann fékk 2 fugla en líka 2 skolla og 1 skramba, 10 höggum fleira en á hringnum góða í gær. Samtals spilaði hann á -11 undir pari 273 höggum (71 66 63 73).

Kylfingarnir 10, í 12. sæti ,eru líka áhugaverðir en allir spiluðu þeir á samtals -4 undir pari hver þ.e. 280 höggum sléttum. Í þessum hóp er nr. 1 í heiminum Luke Donald (69 70 69 72); Ástralinn Jarrod Lyle, sem komst nýverið gegnum Q-school og spilar því á bandaríska PGA á næsta ári (67 71 70 72); og  Greg Chalmers, sem vann bæði Australian Open og Australian PGA Championship á þessu ári (69 70 67 74).

Sjá má stöðuna á JBWere Australian Masters með því að smella HÉR: