Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 22. 2012 | 09:00

Í púttkennslu hjá Butch Harmon og Natalie Gulbis

Nú í þessum mánuði, þegar kalt er veðri og flestir kylfingar geta ekki stundað uppáhaldsiðjuna nema innandyra bjóða golfklúbbar um allt land upp á púttkennslu og púttkeppnir innandyra.  Hjá GK í Hafnarfirði fer t.a.m. Sunnudagspúttmótaröðin vinsæla fram í dag og konurnar í Keili komu saman á fyrsta púttmótinu af hinni gífurlega vinsælu kvennapúttmótaröð Keilis s.l. miðvikudag. Hjá GO var fyrsta almenna púttmótið í gær og í vikunni voru haldin karla- og kvennapúttmót hjá m.a. GA, GO og GR. Eins eru GHG, GKG, GKJ og GS með púttmótaraðir, svo einhverjir klúbbar séu nefndir.  Því er fjöldi íslenskra kylfinga að æfa púttstrokuna þessa dagana.

Natalie að pútta.

Hér að neðan má sjá myndskeið þar sem Butch Harmon, fyrrum sveifluþjálfi Tiger, sem valinn hefir verið fremsti golfkennari Bandaríkjanna um árabil og nemandi hans, LPGA stjarnan Natalie Gulbis fara yfir nokkur atriði, sem mikilvægt er að hafa í huga þegar púttin eru æfð. Butch segir púttin vera með því mikilvægasta í golfleiknum, þau geti sparað högg og leikir unnist með þeim. Flestir sem ekki pútti vel, pútti ekki vel vegna þess að þeir leyfa sér það ekki og haldi m.a. allt of fast um pútterinn.

Natalie Gulbis skoðar púttlínuna.

Natalie segist t.a.m. leggja aðaláherslu á að æfa stuttu púttin – hún æfir þau fyrst á æfingasvæðinu og síðan löngu púttin og segir mikilvægt að halda þeirri rútínu, hvort sem um æfingu eða keppni er að ræða. Hún segist hafa flýtt púttum sínum eftir tíma hjá Butch; hún taki tvær æfingapúttstrokur, horfi einu sinni og pútti svo. Natalie segir einnig að mikilvægt sé að horfa ekki á púttershausinn þegar hann fer aftur heldur hafa augun á golfkúlunni eða stað rétt hjá henni.

Enn er púttlínan granskoðuð...

Eftirfarandi eru nokkur atriði sem mikilvægt að muna þegar púttað er skv. Butch og Natalie:

1. Að halda höfðinu kyrru.

2. Að hangsa ekki of lengi yfir púttinu, til að forða því að neikvæðar hugsanir eyðileggi púttið.

3. Að halda ekki of fast um kylfuna.

4. Að ákveða púttstefnu og taka sér stöðu síðan. Ekki festast í stöðu og aðlaga púttlínuna svo.

5. Að halda hlutunum einföldum – ekki flækja hlutina – hafið golfkúluna nokkurn veginn miðja vegu fyrir framan ykkur og verið með þyngdina aðeins meira í vinstra fæti.

Smellið hér til að sjá: PÚTTKENNSLUMYNDSKEIÐ MEÐ BUTCH HARMON OG NATALIE GULBIS