John Daly er litskrúðugur kylfingur.
Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2012 | 09:00

Hvert er hæsta skor atvinnumanns á stóru mótröðunum?

Þegar ég byrjaði í golfi fundust mér par-3 brautirnar yndislegar og skyldi ekki af hverju nokkur var að búa til skrímsla par-5 brautir.  Þá var 7-járnið eina vopnið og lengdin eitthvað um og undir 100 metra. Og svo var mikið af höggum sem fóru ekki alveg eins og þeim var ætlað…

Eftir að tökum var náð á drævum með frábæra Nike Sumo drævernum, sem var með ferkantað kylfuandlit og ég hitti alltaf með þá urðu par-5 brautirnar allt í einu í uppáhaldi.  Það voru þær, sem oftar en ekki buðu upp á fuglafæri. Undarlegur viðsnúningur þetta – en eflaust ekkert einsdæmi.

En í upphafi var ég oft að velta fyrir mér hvenær í ósköpum ég færi að ná tökum á par-5unum þegar sikk-sakkað var eftir brautinni og skorið oftar en ekki 9-10 högg eða þaðan af verra.

Eftir að hafa spilað 3. brautina á Hellu (flugbrautina) var ég næstum hætt í golfi. Nýjum dýptum var náð í par-5 klúðrum – heil 16 högg!!!

En… ég var með frábæran golfkennara. Hann sagði mér að ég væri ekki eini kylfingurinn í heiminum sem „sprengdi holur.“ Ég væri bara byrjandi og skorti æfingu, en svo kæmi þetta líka fyrir atvinnumenn, heimsins bestu kylfinga, þeir hefðu aðeins lært með tíma að skilja að þetta gæti komið fyrir alla …. og þá skein sólin aftur og heimurinn var í lagi.

Lítum yfir lista af mestu klúðrum atvinnumanna og kannski það sé einhverjum byrjandanum í golfi einhver huggun. Þeim bestu getur nefnilega líka orðið á í messunni.

PGA Tour hefir aðeins haldið tölfræði yfir skor einstaklinga frá árinu 1983.  Þannig að frá árinu 1983 eru hæstu skor atvinnumanna á PGA Tour mótum eftirfarandi:

  • 18 högg-  John Daly  á  par-5 braut á Bay Hill Invitational 1998.
  • 16  högg-  Kevin Na á par-4 braut  á Valero Texas Open 2011.
  • 16  högg- Gary McCord á  par-5 braut FedEx St. Jude Classic 1986.

Átján höggin hans John Daly’s áttu sér stað á 6. braut Bay Hill og voru afleiðing þess að 6 pútta hans enduðu í vatni og hann varð að taka víti í hvert sinn.. Ævintýri Kevin Na má sjá með því að  SMELLA HÉR: 

Það eru til staðfestar frásagnir af svipuðum eða jafnvel hærri skorum frá fyrri árum. T.a.m. var Tommy Armour á 23 höggum á par-5 brautinni á Shawnee Open, 1927.

Ed „Porky“ Oliver made var með 16  högg á par-3 brautinni á Bing Crosby Pro-Am 1954.

Hæstu skor á Evrópumótaröðinni

Verstu skorin á European Tour eða Evrópumótaröðinni eru eftirfarandi:

  • 20 högg – Philippe Porquier á par-3 braut á  French Open 1978.
  • 17 högg – Chris Gane á Diageo Championship i Gleneagles 2003.

Af öðrum mótaröðum og risamótum mætti nefna að hæsta skor á eina holu á US Open eru 19 högg sem Ray Ainsley hlaut á par-4 holu á US Open 1938. Þetta skor er viðurkennt af bandaríska golfsambandinu (ens: USGA) sem opinbert skor í móti og US Open telst sem mót á PGA Tour. En aftur til upprifjunar:  Túrinn hefir aðeins haldið utan um skor opinberlega frá árinu 1983 og heldur sig við það ár sem upphaf í allri tölfræði.

Loks mætti geta Mitsuhiro Tateyama var á 19 höggum á par-3 holu á  Acom International árið 2006, en mótið er hluti af japanska PGA túrnum.