Ragnheiður Jónsdóttir | september. 1. 2014 | 06:00

Hvernig líta Ryder bikars liðin út í ár?

Ryder bikars keppnin fer fram á PGA Centenary golfvellinum  í Gleneagles, Skotlandi dagana 23.-28. september 2014.

Hvernig eru Ryder bikarslið Evrópu og Bandaríkjanna skipuð í ár?

9 kylfingar í hvoru liði um sig hafa komist sjálfkrafa í liðin, en nú er bara beðið eftir útefningum fyrirliða hvors liðs um sig Paul McGinley og Tom Watson, sem hvor um sig fær að velja 3 kylfinga (á ensku nefnd wildcards). Þeir tilkynna um val sitt á morgun 2. september 2014.

Lið Evrópu:

Rory McIlroy, Henrik Stenson, Victor Dubuisson, Jamie Donaldson,  Sergio Garcia, Thomas Björn, Justin Rose, Martin Kaymer og Graeme McDowell.

Lið Bandaríkjanna:

Bubba Watson, Rickie Fowler, Jim Furyk, Jimmy Walker, Phil Mickelson, Matt Kuchar, Jordan Spieth, Patrick Reed og Zach Johnson.

Val fyrirliðanna verður erfitt. Paul McGinley fyrirliði liðs Evrópu verður að líta til þess að Skotanum Stephen Gallacher, sem býr aðeins 35 km frá Gleneagles og þekkir Centenary völlinn eins og höndina á sér, vantaði aðeins 1 högg til þess að komast sjálfkrafa í liðið.   Það væri sterkt að hafa hann í liðinu og mörgum finnst það bara sanngirnismál.  Síðan eru menn eins og Ian Poulter, sem mörgum finnst að eigi bara að æviráða í liðið eftir vaska framgöngu fyrir 2 árum í „kraftaverkinu í Medinah.“    Svo eru aðrir frábærir kylfingar úr kraftaverkaliðinu sem koma til álita; menn eins og Francesco Molinari, Nicolas Colsaerts og Lee Westwood sem og fyrrum nr. 1 á heimslistanum Luke Donald.   Svo eru aðrir flottir evrópskir kylfingar, menn á borð við Matteo Manassero, Miguel Angel Jimenez, Mikko Ilonen, Jonas Blixt og Joost Luiten. Sumir hafa jafnvel haft á orði að ekki væri galið að velja Skotann Colin Montgomerie í liðið, sem verið hefir sigursæll á öldungamótaröðum beggja vegna Atlantshafs í ár.

Val Golf 1: Stephen Gallacher, Ian Poulter og Francesco Molinari.  (Það má rökstyðja val Molinari á ýmsan máta.  Eitt er að Gallacher og Poulter (og sama þó í þeirra stað væru valdir Luke Donald eða Westwood) eru báðir frá Bretlandseyjum og ekki nema réttlætismál að velja 1 af 3 frá meginlandi Evrópu.  Með þessu væri fullkomið jafnræði: 6 menn frá Bretlandi og 6 frá meginlandi Evrópu í Evrópuliðinu. Það skiptir þó kannski minnstu.  Molinari hefir reynslu af leik í Rydernum eins og Donald og Westwood,  hann hefir staðið sig vel undanfarið (það sama er ekki hægt að segja um hina), hann er óumdeilanlega einn besti kylfingurinn í fjórmenningi og ef maður vill hafa mann í liðinu sem er beinn og á braut þá er Molinari maðurinn!!!) Andstyggilegri rökstuðningur er e.t.v. að ekki eigi að velja menn í lið vegna fornrar frægðar (Westwood og Donald hafa t.a.m. báðir verið nr. 1 á heimslistanum) eða tengsla við menn – Það verður einfaldlega að velja besta liðið á hverjum tíma.)

Val Monty (Colin Montgomerie fyrrum fyrirliða Ryder bikars liðs Evrópu):  Stephen Gallacher, Ian Poulter og Lee Westwood.

Tom Watson fyrirliði Bandaríkjanna á ekki síður erfitt val fyrir höndum jafnvel þó margir bestu kylfingar Bandaríkjanna verði ekki með í Rydernum í ár eins og Tiger Woods, Dustin Johnson, og Jason Dufner.  Menn sem koma sterklega til greina sem val Watson eru Keegan Bradley, Hunter Mahan, Bill Haas, Webb Simpson og Brandt Snedeker.  Síðan eru margir ungir og efnilegir sem Watson á færi á að gefa sjens, menn eins og Russell Henley, sem er að brillera á besta tíma á Deutsche Bank Championship, Harris English , Kevin Streelman, Chris Kirk, Gary WoodlandBrendon Todd og Chesson Hadley, sem án efa eru mikil framtíðarefni.

Val Golf 1: Keegan Bradley, Hunter Mahan og Russell Henley (þó síðastgreindi kylfingurinn sé e.t.v. meiri óskhyggja og raunhæfara að Brandt Snedeker, Bill Haas eða Webb Simpson verði fyrir valinu, vegna meiri reynslu, sem og þess að þeir eru allir hærra rankaðir á heimslistanum).  En í Henley hefði Watson strák, sem blóðlangar til að sanna sig og það er oft sterkari drifkraftur en nokkuð annað – Örlög Henley ráðast sennilega af því hvort hann virkilega sigrar í Deutsche Bank Championship.