„Norska frænka okkar“ Suzann Pettersen þegar hún sigraði á Lotte Championship í nýju FI Impact golfskónum frá Nike.
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 23. 2013 | 08:00

Hverjir eru „heitir“ og hverjir „afleitir“ í golfinu þessa vikuna?

Alan Shipnuck, golfpenni SI (Sports Illustrated) og Golf.com hefir tekið saman lista yfir það sem honum þykja vera „heitustu“ kylfingarnir þ.e. hetjur vikunnar og síðan þá sem að hans mati eru „afleitir“ eða hreint og beint algjör núll, þessa vikuna. Álit hans er vel rökstutt, sbr. eftirfarandi:

HETJUR

1. G-Mac. Hann var að flytjast inn í draumahúsið sitt, opnaði krá og trúlofaði sig. Hvað er það sem hann hefir vantað? Ummm jú, einmitt SIGUR. En nú er þeirri þriggja ára þrautagöngu lokið og hann kominn á topp-10 heimslistans á ný, eftir sigur á RBC Heritage!!!

2. Bernhard Langer. Það sem af er hefir hann borið af á öldungamótaröðinni og síðasti sigur hans nú um helgina var hans 2. á tímabilinu og 5. topp-3 árangur hans. Er hann ekki einfaldlega vanmetnasti kylfingur allra tíma á eftir Billy Caspar kannski?

3. Suzann Pettersen. Hún hefir alltaf verið ein af best þjálfuðustu kylfingunum í kvennagolfinu.  En nú þegar hún er 32 er hún beittari en nokkru sinni og er að vinna hvern sigurinn á fætur öðrum á LPGA!!!! Nú um helgina var síðasti sigur hennar á LPGA Loette Championship á Hawaii.

4. Natalie Gulbis á Twitter. Hún hefir lyft bikíní-sjálfmyndum á nýjan stall í fagurfræði innan myndlistarinnar. Hér má sjá nýjasta dæmið:   SMELLIÐ HÉR. og Shipnuck finnst myndin ein sér næg ástæða til að fjölga mótum á Hawaii!

5. Vindur. Ekkert skapar meira drama á mótum eins og smá vindhviður.  Shipnuck fannst það t.a.m. auka skemmtunina að sjá hetjur golfsins spila í vindi í Harbour Town nú um helgina (þar fór RBC Heritage mótið fram.)

ALGJÖR NÚLL

1. Opna spænska (Open de España). Í hundleiðinlegum bráðabana þurftu Raphaël Jacquelin og Þjóðverjinn Maximillian Kieffer að spila 18. holuna á El Saler níu sinnum þar til  Jacquelin hafði loks betur.

2. Lizette Salas. Shipnuck segist líka vel við þessa 23 ára sleggju og það sé erfitt að finna eitthvað að henni eftir að hún átti lokahring upp á 62 högg (á LPGA Lotte Championship) en hún er algjört núll fyrir að slá boltann sinn í vatn á 1. holu bráðabana. En ólíkt strákunum á Spáni gerði hún það þó a.m.k. á 1. holu bráðabanans.

3. Charley Hoffman. Hann var í forystu á Hilton Head eftir 54 holur en gaf síðan allt frá sér. Síðan var hann í deilum við gamla kylfusveininn Kip Henley á Twitter.  Eini ljósi punkturinn sem Shipnuck sér er að Billy Ray Cyrus hefir ekki enn hringt í hann og óskað eftir hárgreiðslunni sinni aftur.

4. Peter Uihlein.  Shipnuck segist elska drenginn en afleitt sé hjá honum að vera í forystu eftir 36 holur og eyðileggja síðan allt með 74-73 um helgina og lenda í 8. sæti.  En eitt má vera alveg viss um: hann kenndi kylfunum sínum ekki um!!!

5. Hunter Mahan. Í síðustu 8 hringjum sínum hefir hann verið á 74 höggum eða verra í 6 skipti þ.á.m. var hann á 82 höggum í Augusta og 78 á Hilton Head.  Er hægt að kenna Hank Haney um þetta?