Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 24. 2012 | 13:30

Hver var fyrsta konan sem gegndi stöðu formanns golfklúbbs á Íslandi?

Það er ágætt að rifja af og til upp söguleg atriði í golfinu. T.a.m. eins og hver hafi fyrst kvenna gegnt stöðu formanns í golfklúbbi hér á landi?

Það var Ragnheiður Guðmundsdóttir, læknir sem varð 97 ára, þann 20. ágúst s.l. Óskar Golf 1 henni eftir á innilega til hamingju með afmælið!!!

Ragnheiður Guðmundsdóttir, læknir, fyrsti formaður golfklúbbs á Íslandi. Mynd: Læknablaðið

Ragnheiður var fyrsta konan á Íslandi  til að gegna embætti formanns í golflkúbbi og það í stærsta klúbbi landsins, GR, á árunum 1958-1959.  Hún átti þá mikinn þátt í samningum klúbbsins við borgaryfirvöld um byggingu Grafarholtsvallar.

Sagt hefir verið um Ragnheiði að hún hafi verið ein fárra kvenna í heiminum, sem var valin til forystu í því karlavígi sem golfið var og er.

Hún gekk til liðs við GR, sem þá hét Golfklúbbur Íslands fyrir seinni heimsstyrjöldina þ.e. árið 1938.  Þá var Ragnheiður 23 ára læknanemi.  Í skemmtilegu viðtali Morgunblaðsins við Ragnheiði segir hún m.a. að erfitt hafi verið að fá kúlur og kylfur í seinni heimsstyrjöldinni og þegar hún hafi byrjað hafi hún ekki átt nema 5 kylfur og golfskó hafi hún ekki eignast fyrr en löngu eftir stríð. Líkt  og nú spiluðu þeir forföllnuðustu í íþróttinni alla daga sem veður leyfði; Ragnheiður rifjaði m.a. upp að eitt sinn hefði hún spilað 2. í jólum því veðrið hefði verið svo gott.

Sjá má nánar skemmtilega grein í Morgunblaðinu, sem rituð var í tilefni af því að Ragnheiður var gerð að heiðursfélaga GR árið 2001 (hún var einnig gerð að heiðursfélaga GN sama ár) með því að SMELLA HÉR: