Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 22. 2014 | 14:00

Hver er kylfingurinn: Victor Dubuisson?

Victor Dubuisson var ekki stórt hlutabréf í golfheiminum fyrir sigur sinn í Turkish Airlines Open, þann, 10. nóvember 2013. Sigurinn var fyrsti sigur hans á Evrópumótaröðinni.  Í ársbyrjun 2013 var hann nr. 139 á heimslistanum, en nú er hann nr. 30 og búinn að ávinna sér sæti á The Masters risamótinu, sem hann hefir aldrei áður spilað í. Gleðin var því mikil hjá Dubuisson eftir sigurinn á Turkish Airlines, enda þó ekki sé nema fyrir þær sakir að hann fær að spila Augusta National, sem er draumur flestra kylfinga.  En ekki nóg með það. Dubuisson varð líka um € 850.000,- ríkari (þ.e. u.þ.b.  140 milljónum íslenskra króna ríkari!!!)

Nú er Dubuisson kominn í 8 manna úrslit á heimsmótinu í holukeppni – og vestra í Bandaríkjunum furða sig allir á Frakkanum fráa, sem vinnur hvern sigurinn á fætur öðrum í heimsmótinu (en í 1. umferð vann hann Kevin Streelman og í 2. umferð Svíann Peter Hanson og í gær sjálfa sleggjuna Bubba Watson– Í dag í 4. umferð spilar hann á móti Graeme McDowell).

En hver er kylfingurinn Victor Dubuisson?

Victor Dubuisson er einn af 3 Frökkum, sem fékk kortið sitt á Evróputúrinn 2011, eftir að hafa lent í 11.-18. sæti í Q-school, á PGA Catalunya golfvellinum, í Girona, á Spáni, í desemberbyrjun (4.-10. desember 2010). 
Victor lauk keppni á samtals 12 undir pari, þ.e. 416 höggum (69 74 69 65 68 71). Um sigur sinn sagði Dubuisson að hann hefði verið „draumur sem rættist.“ 
Victor fæddist 22. apríl 1990 í Nice, í Frakklandi og er því 23 ára gamall. Hann býr í kvikmyndahátíðarborginni frægu, Cannes, á Côte d´Azur.
Victor á að baki glæstan feril í áhugamennskunni í Frakklandi. Hann vakti fyrst athygli á sér með því að vera 7 sinnum meðal 10 efstu árið 2008 á áhugamannamótaröðinni í Frakklandi.
Árið 2009 spilaði Victor á Challenge Tour og varð 4 sinnum meðal topp 10. Árið 2009 varð hann nr. 1 á heimslista áhugamanna en það ár vann hann m.a. European Amateur Championship. Sigurinn í því móti varð til þess að hann hlaut þátttökurétt á Opna breska 2010, þar sem hann lék í holli með KJ Choi og Bubba Watson á St Andrews, en komst því miður ekki í gegnum niðurskurð á þessu eina risamóti, sem hann hefir tekið þátt í til þessa.
Í framhaldinu gerðist Victor atvinnumaður í golfi, í júlí 2010.
Vegna fallegrar sveiflu sinnar hefir Victor verið uppnefndur “Mozart”.  

(Framangreind grein greinarhöfundar birtist 29. janúar 2011 á iGolf). 

Við framangreint verður auðvitað bæta hvað gerst hefir á ferli Dubuisson frá ársbyrjun 2011.   Þess ber fyrst að geta að allt frá því að hann fékk kortið sitt á Evrópumótaröðinni hefir hann ekki sleppt taki á því. Fyrsta keppnistímabilið var það þó tæpt hann var nr. 106 á The Race To Dubai.  Hann bætti þá stöðu 2012 þegr hann varð í 52. sæti þökk sé frábærum árangri hans í nokkrum lykilmótum og glæsiárangri hans í Austurlöndum fjær þar sem hann varð m.a. T-11 í Maybank Malaysian Open, T-4 í Volvo China Open og T-3 í  Ballantine’s Championship.

Árið í ár hefir verið besta ár Dubuisson til þessa. Fyrir utan sigurinn í Tyrklandi náði hann m.a. góðum árangri á Maybank Malaysian Open (sem virðist vera mótið hans) í ár varð hann T-4; síðan varð hann tvívegis í 3. sæti þ.e. á Volvo China Open 5. maí 2013 og á Omega European Masters 8. september s.l.

Dubuisson byrjaði að spila golf 8 ára og 15 ára ákvað hann að hann myndi gerast atvinnumaður. Dubuisson sigraði í European Individual Amateur Championship árið 2009 og það ár varð hann nr. 1 á heimslista áhugamanna.

Dubuisson varð í 24. sæti á fyrsta móti sínu sem atvinnumaður sem var Nordea Scandinavian Masters,árið 2010,  en sagði að verðlaunaféð f €16,400 hefði allt farið í leigu á dýrri íbúð sinni í kvikmyndaborginni Cannes (hann ætti ekki að vera í vandræðum með leiguna lengur 🙂

Loks mætti geta þess að Victor Dubuisson er góður vinur kylfingsins Jean-Baptiste Gonnet, sem líka spilar á Evrópumótaröðinni og sem býr rétt hjá Dubuisson í Cannes.  Þeir njóta þess að spila golf saman og eru oft paraðir saman á mótum í Frakklandi.  Fyrir utan golf finnst Dubuisson gaman í squash og tennis.