Stacy Lewis – leikmaður ársins 2012 á LPGA – fyrsti bandaríski kylfingurinn frá því Beth Daníel hlotnaðist heiðurinn, 1994
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 5. 2014 | 20:45

Hver er kylfingurinn: Stacy Lewis?

Stacy Lewis sigraði í gær á North Texas LPGA Shootout. Þetta er fyrsti sigur hennar á LPGA frá því hún sigraði í Ricoh Opna breska kvenrisamótinu á síðasta ári.

En hver er þessi hægláti kylfingur, fyrrum nr. 1 á Rolex-heimslista kvenna?

Stacy fæddist 16. febrúar 1985 í Toledo, Ohio og varð því  29 ára á árinu. Stacy á því sama afmælisdag og Marlene Hagge, en hún var ein af 13 stofnendum LPGA, en Stacy vann einmitt RR Donnelley LPGA Founders Cup á árinu 2013, sem er mót til heiðurs stofnenda LPGA.

Stacy á alls  að baki 9 sigra á LPGA, þar af á 2 risamóti, auk þess hefir hún 1 sinni sigrað á japanska LPGA eða alls 10 mót á atvinnumannsferlinum.

Stacy ólst upp í Texas, „At The Woodlands“ í úthverfi Houston og útskrifaðist frá The Woodlands High School árið 2003.

Stacy átti í stríði við sjúkdóminn scoliosis, sem hún var greind með við 11 ára aldur og var meðhöndluð við honum í menntaskóla og gekkst síðan undir uppskurð sem varð til þess að hún missti af 1. golfkeppnistímabili sínu í háskóla.

Stacy Lewis

Stacy Lewis

Áhugamannsferillinn

Lewis hlaut fjöldann allan af viðurkenningum sem áhugamaður; var m.a. fjórum sinnum All-American við University of Arkansas. Hún spilaði með liðinu fyrsta árið sitt, meðan hún var enn að jafna sig eftir uppskurð í baki. Sem nýliði, árið 2005 vann hún Southeastern Conference Tournament og var útnefnd SEC nýliði ársins. Árið 2006 vann hún the Women’s Western Amateur.

Árið 2007, jafnvel þó bakmeiðslin hömluðu því að hún keppti á SEC mótinu, þá vann Lewis NCAA Division I Championship og var valin Golf Digest áhugamaður ársins. Hún hlaut líka National Golf Coaches Association Dinah Shore Trophy. Stacy vann síðan 92. Women’s Southern Amateur og varð í 2. sæti í einstaklingskeppninni eftir að hafa leitt bandaríska liðið til sigurs í Copa de las Americas.

Stacy komst í gegnum úrtökumót fyrir US Women´s Open risamótið, árið 2007 í Norður-Karólínu, en var með skor upp á 78-73 og rétt missti af niðurskurði (með 3 höggum) og varð T-93. Tveimur mánuðum síðar varð Lewis í 1. sæti á LPGA NW Arkansas Championship, sem er mót á LPGA mótaröðinni. Vegna rigningar var mótið stytt um einn hring og sigur Lewis því óopinber.

Á lokaári sínu í háskóla, 2008, vann Lewis aftur SEC Tournament og var valin SEC kylfingur ársins og SEC Golf Scholar Athlete ársins. Hún var valin í ESPN the Magazine Academic All-America liðið í 2. sinn og  NGCA All-America í 4. skiptið.

Stacy Lewis útskrifaðist síðan frá Arkansas háskóla árið 2008 með gráðu í fjármálum og endurskoðun.

Stacy var í bandaríska Curtis Cup liðinu 2008 og hún var fyrsti leikmaðurinn með árangur upp á 5-0 í einu og sama Curtis Cup móti (þ.e. með 5 sigra og ekkert tap). Árið 2008 var spilað á Old Course, St. Andrews, seint í maí og snemma í júní og þetta var síðasta mót hennar sem áhugamanns. Lið Bandaríkjanna vann 13-7 og var þetta 6. sigurinn í röð á liði Breta&Íra.

Stacy Lewis - leikmaður ársins 2012 á LPGA - fyrsti bandaríski kylfingurinn frá því Beth Daníel hlotnaðist heiðurinn, 1994

Stacy Lewis – leikmaður ársins 2012 á LPGA – fyrsti bandaríski kylfingurinn til að fá þau verðlaun, frá því Beth Daníel hlotnaðist heiðurinn, 1994

Atvinnumannsferill

Eftir sigurinn í Curtis Cup gerðist Lewis atvinnumaður í golfi, en áður tók hún aftur þátt í úrtökumóti fyrir US Women´s Open. Hún varð í 1. sæti í úrtökumótinu í Garland, Texas og 9. júní 2008 spilaði hún í fyrsta móti sínu sem atvinnumaður. Lewis var T-9 eftir 36 holur og var á 6 undir pari, 67 höggum á 3. hring og í forystu en spilaði síðan lokahringinn á 5 yfir pari, 78 höggum og lauk keppni T-3, þ.e. jöfn öðrum í 3. sæti, 5 höggum á eftir sigurvegaranum Inbee Park.  Segja má að sigurinn á Opna breska hafi því verið sérlega sætur í gær, þar sem hún varð í því sæti en ekki Inbee að þessu sinni!

Stacy keppti í 7 mótum á LPGA árið 2008 og var með tvo topp-10 árangra og vann sér inn verðlaunafé upp á u.þ.b. $247,000.

Fyrir árið 2009 var Lewis ekki félagi á LPGA eða neinni annarri atvinnumannamótaröð. Hún mátti spila á US Women´s Open eftir að taka þátt í úrtökumótinu. Hún reyndi síðan að vinna sér inn kortið sitt á LPGA með því að fá undanþágur styrktaraðila, en það bar engan árangur.

Hún fór því í LPGA Q-school ferlið og komst alla leið á lokaúrtökumótið. Á lokaúrtökumótinu, sem hlaut óvenjumikla athygli fjölmiðla vegna þátttöku Michelle Wie í því, varð Stacy í 1. sæti, 3 höggum á undan þeirri næstu og 6 höggum á undan Wie, sem varð í 7. sæti.

Fyrsti opinberi sigur Stacy Lewis á LPGA var á Kraft Nabisco mótinu árið 2011, risamóti, þar sem hún var í forystu fyrstu 2. hringina og hafði m.a. betur en nr. 1 á heimslistanum, sem jafnframt var sú sem átti titil að verja, enga aðra en Yani Tseng … og síðan vann Stacy mótið með 3 höggum.

Stacy Lewis spilaði í fyrsta sinn í Solheim Cup 2011 og var nr. 2 af þeim sem komust sjálfkrafa í liðið á eftir Cristie Kerr.  Nokkuð öruggt er að Stacy verður í Solheim Cup liði Bandaríkjanna 2013.

Meðal styrktaraðila Lewis eru Mizuno (kylfur) og Fila Golf (golfklæðnaður).  Hún skrifaði líka undir mjög ábatasaman styrktarsamning við KPMG árið 2012.

Árið 2012 vann hún 4 mót og varð fyrsti bandaríski kvenkylfingurinn til þess að verða valinn LPGA leikmaður ársins allt frá því Beth Daniel hlaut titilinn 1994.

Þann 17. mars 2013, eftir sigur á RR Donnelley LPGA Founders Cup í Arizona velti Stacy Lewis, Yani Tseng af hásæti heimslistans og varð nr. 1.  Hún var 2. Bandaríkjamaðurinn sem sat í 1. sæti heimslistans en Cristie Kerr varð fyrst bandarískra kylfinga til þess að komast á toppinn. Sigurinn á Opna breska kvenrisamótinu var 3. sigur hennar á 2013 keppnistímabilinu og voru því miklar væntingar bundnar við Stacy í Solheim bikarskeppninni 2013, sem fram fór í Bandaríkjunum, en henni gekki fremur illa í því móti og bar við þreytu eftir árið.

Sigurinn á North Texas LPGA Shootout er fyrsti sigur Stacy 2014. Það verður gaman  að fylgjast með hvað einn besti kvenkylfingur heims (Stacy Lewis), sem nú vermir 3. sæti Rolex-heimslista kvenna, gerir það sem eftir ársins!

Heimild: Wikipedia