Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 15. 2017 | 10:00

Hver er kylfingurinn: Si Woo Kim?

Si Woo Kim komst fyrst á PGA Tour 17 ára og er sá yngsti 17 ára, 5 mánaða og 6 daga þegar hann afrekaði það í Q-school PGA í desember 2012.

Golf 1 skrifaði kynningargrein um „Nýju strákana á PGA Tour“ og má hér lesa kynningu Golf 1 á þessum yngsta meðlim PGA Tour frá upphafi Si Woo Kim með því að SMELLA HÉR: 

Í raun er árangur þessa unga, suður-kóreanska kylfings algjörlega ótrúlegur!!!

En margir kannast samt ekki við hann og kunna að spyrja: Hver er kylfingurinn?

Si Woo Kim

Si Woo Kim

Si Woo Kim fæddist 28. júní 1995 og er 21 árs í dag, 3 árum eftir að hann fékk kortið sitt á PGA Tour, því PGA hélt fast við að hann fengi ekki kortið fyrr en á 18 ára afmælisdaginn 28. júní 2013.

Kim var í Shinsung menntaskólanum í Suður-Kóreu, þaðan sem hann útskrifaðist 2014 og fór síðan í Yonsei háskólann í Seúl.

Hann fékk í fyrstu aðeins að spila hálft keppnistímabil á PGA Tour þ.e. í 8 mótum árið 2013 og náði ekki niðurskurði í 7 þeirra og dró sig úr 8. mótinu.

Kim spilaði líka í 7 Web.com Tour mótum árið 2013, og náði niðurskurði 4 sinnum.

Hann spilaði áfram á Web.com Tour árið 2014 og náði þá 15 sinnum að komast í gegnum niðurskurð í 19 mótum sem hann tók þátt í; þ.á.m varð hann í 3. sæti á  Cleveland Open.

Árið 2015 sigraði hann í  Web.com Tour móti þ.e. the Stonebrae Classic, þann 19. júlí 2015 og var þá 2. yngsti sigurvegarinn í sögu Web.com Tour, á eftir Jason Day.

Árið 2015 varð hann í 10. sæti á peningalista Web.com Tour og hlaut því sæti sitt á PGA Tour keppnistímabilið 2016.

Si Woo Kim eftir sigurinn á Wyndham Championship í fyrra 2016

Si Woo Kim eftir sigurinn á Wyndham Championship 2016

Þar sigraði hann fyrst á PGA Tour á Wyndham Championship, 21. ágúst 2016, átti heil 5 högg á þann sem næstur kom sem var Luke Donald. Sigurskor hans á Wyndham var líka ótrúlega lágt 21 undir pari, 259 högg (68 60 64 67) og allir 4 hringir vel undir 70!!!  Kim var nýorðinn 21 árs og yngsti sigurvegarinn á því keppnistímabili PGA Tour – Sjá má úrslitafrétt Golf 1 um sigur Kim á Wyndham með því að SMELLA HÉR: 

Annar sigurinn, ekki síður glæsilegur, á PGA Tour, kom síðan í gær, 14. maí 2017, á sjálfu mótinu, sem oft er nefnt 5. risamót karlagolfsins; þ.e. The Players – en Kim náði sigrinum gegn öllum bestu kylfingum heims (á ensku nefnt ″deepest field in golf″).

Hann átti 3 högg á næsta keppanda, sem voru Louis Oosthuizen og Ian Poulter; átti 3 högg á þá eftir að hafa skilað skollalausu skorkorti lokahringinn upp á 69 högg.  Samtals lék Kim á 10 undir pari, 278 höggum (69 72 68 69).

Hann varð þar með 2. kylfingurinn frá S-Kóreu til að sigra í The Players, en þeim fyrsta sem það lukkaðist var K. J. Choi árið 2011.