Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 4. 2012 | 14:00

Hver er kylfingurinn: Rory McIlroy? Grein nr. 1 af 8

Hver skyldi nú kylfingurinn Rory McIlroy vera?

Flestir kannast við unga, brúnkrullinhærða piltinn frá Norður-Írlandi, sem þykir algert undrabarn í golfinu. Ef allt gengur að óskum verður Rory McIlroy nr. 1 á heimslistanum, þ.e. ef hann sigrar á Honda Classic í kvöld.  Hér fer nú af stað 1. grein af 8 um hver kylfingurinn Rory McIlroy er:

Rory fæddist 4. maí 1989 í Holywood County Down, á Norður-Írlandi og er því 22 ára. Hann er 1,75 m á hæð og 73 kg og býr til dagsins í dag á Norður-Írlandi, þ.e. í Carryduff.  Rory gerðist atvinnumaður 2007 og hefir þrátt fyrir ungan aldur 5 sinnum sigrað á stærstu mótaröðum heims: 2 sinnum á PGA Tour og 3 sinnum á Evrópumótaröðinni.  Besti árangur hans í risamótum er sigur á Opna bandaríska 19. júní 2011, T-3 bæði á Opna breska og PGA Championship 2010 og T-15 á Masters 2011.  Með sigri sínum á Opna bandaríska í fyrra varð hann sá yngsti til að sigra á risamótinu allt frá árinu 1923, en það ár vann Bobby Jones og á aldursmetið sem yngsti sigurvegari mótsins.

Rory er MBE (Member of the British Order) þ.e. honum hefir verið veitt sú heiðursorða úr höndum Elísabetar Bretadrottningar.

Rory er á góðri leið með að verða einn af launahæstu kylfingum hvað varðar styrktar- og auglýsingasamninga.

Rory hefir m.a. 1 sinni verið í liði Evrópu í Ryder Cup (2010). Eina viku var hann í 1. sæti á heimslista áhugamanna í golfi, þá 17 ára. Spurning hvort hann kemst í 1. sæti á heimslista atvinnumanna í kvöld?

Heimild: Wikipedia