Rickie Fowler
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 13. 2015 | 12:00

Hver er kylfingurinn: Rickie Fowler? (2/5)

Nafnið sem er á allra vörum þessa dagana er Rickie Fowler. Hann sannaði það s.l. helgi 9-10. maí 2015 að hann er ekki bara sætur strákur, kynþokkafullur kylfingur, Boys banda meðlimur með bíladellu heldur frábær kylfingur. Félagar hans á PGA Tour voru stuttu fyrir sigur hans á The Players mótinu, sem oft er nefnt 5. risamótið, búnir að velja hann ásamt Ian Poulter „ofmetnustu kylfingana á PGA Tour.“ Fowler er svo sannarlega búinn að þvo þau hallmæli af sér og nú er m.a. talað um hann sem „verðandi golfgoðsögn“!

En hver er kylfingurinn Rickie Fowler? Því verður reynt að svara í 5 greinum og birtist 2. greinin nú í dag.

Eftir Walker Cup árið 2009 gerðist Fowler atvinnumaður í golfi og lék í  Albertsons Boise Open á Nationwide Tour (sem nú heitir Web.com mótaröðin) í fyrsta móti sínu.

Í september 2009 var tilkynnt að Fowler hefði skrifað undir útbúnaðarsamning við Titleist til marga ára.  Hann hefir síðan líka skrifað undir styrktarsamning við Rolex.

Fyrsta mótið á PGA Tour sem Rickie spilaði á var the Justin Timberlake Shriners Hospitals for Children Open þar sem hann varð T-7.  Annað mótið hans á PGA Tour var Frys.com Open sem fram fór í Grayhawk Golf Club í  Scottsdale, Arizona. Hann varð T-2 eftir að tapa fyrir Troy Matteson í 3 manna bráðabana, en þar tók líka þátt Jamie Lovemark. Fowler var á skori upp á 18 undir pari, en þ.á.m. var hann með holu í höggi á 5. holunni á lokahringnum. Fowler náði líka erni á öllum 4 hringjum sínum í mótinu.

Í desember 2009 vann Fowler sér inn kortið sitt PGA Tour, eftir að hafa farið í gegnum Q-school og lokið þar keppni T-15.