Ragnheiður Jónsdóttir | október. 2. 2012 | 19:00

Hver er kylfingurinn: Paul Lawrie?

Paul Stewart Lawrie, MBE, er skoskur kylfingur sem var fyrir sunnudaginn s.l. þ.e. 30. september 2012, best þekktur fyrir að sigra á Opna breska árið 1999.  Á sunnudaginn var hann einn af 8 leikmönnum í Ryder Cup liði Evrópu 2012, sem vann sinn leik.  Lawrie vann bandarískan keppinaut sinn, Tour Championship sigurvegarann 2012, Brandt Snedeker með stærsta mun allra sigurleikja Evrópu, 5&3. Vipp hans beint ofan í holu á 4. braut Medinah golfvallarins er eitt fallegasta höggið í allri keppninni.  Hann vann dýrmætt stig fyrir lið Evrópu og þáttur hans gleymist ekki svo glatt.

Nýliðinn Brandt Snedeker óskar reynsluboltanum Paul Lawrie til hamingju eftir að sá síðarnefndi sigraði hann í tvímenningsleik þeirra í Medinah á sunnudeginum, 5&3.

Lítið fer fyrir þessum hógværa skoska atvinnu kylfingi. Hver er hann?

Paul Lawrie fæddist í Aberdeen í Skotlandi 1. janúar 1969 og er því 43 ára. Lawrie gerðist atvinnumaður 1986 og komst á Evrópumótaröðina 1992 og er þ.a.l. búinn að spila golf á hæsta stigi atvinnumennsku í Evrópu í 20 ár. Árangur hans var stöðugur en hann vakti litla athygli á sjálfum sér, burtséð frá því þegar hann varð í 6. sæti á Opna breska árið 1993.

Á fyrstu 7 keppnistímabilum hans var hann aðeins einu sinni í topp-30 á stigalista Evrópu þ.e. þegar hann varð í 21. sæti árið 1996. En hann var hins vegar líka alltaf meðal 100 efstu í 6 keppnistímabilum. Fyrsti sigurinn á Evróputúrnum kom árið 1996 þegar hann sigraði á Catalan Open.

Alls hefir hann sigrað á 12 mótum sem atvinnumaður og þar af 8 sinnum á Evrópumótaröðinni. Ferill Lawrie breyttist 1999. Eftir að hann sigraði á Qatar Masters, á Evróputúrnum, snemma á tímabilinu keppti hann á Opna breska, sem þá fór fram í júlí, á Carnoustie. Þetta var Opna breska mótið þar sem Frakkinn Jean van de Velde kastaði frá sér 3 högga forskot á lokaholunni. Lawrie vann 4 holu umspil á móti Van de Velde og Bandaríkjamannsins Justin Leonard. Það sem var óvenjulegt við sigur Lawrie var að hann var aldrei í forystu og ekki einu sinni í 2. sæti á neinum punkti á reglulegu 72 holu spilinu; hann deildi aðeins 1. sætinu eftir lokahringinn.  Hann var 10 höggum á eftir Van de Velde eftir 3. dag mótsins sem er það mesta sem sigurvegari hefir verið á eftir í risamóti. Þetta er líka metið á PGA Tour.

Paul Lawrie með Claret Jug eftir sigurinn á Opna breska 1999

Eftir risamóts sigur sinn, færðist Lawrie á hærra stig án þess að blandast endilega fremstu kylfingum heims. Hann varð í 9. sæti á stigalista Evrópu 1999; var í 6. sæti 2001, þegar hann vann feit verðlaun Dunhill Links Championship (en mótið hefst einmitt í þessari viku); og í 10. sæti 2002 þegar hann vann 5. sigur sinn á Evrópumótaröðini þ.e. í  Celtic Manor Resort Wales Open.

Í mars 2001 var Paul Lawrie Foundation komið á laggirnar. Markmið Paul Lawrie stofnunarinnar er að styðja við og viðhalda áhuga á golfi meðal ungmenna undir 18 ára aldri. Athafnir í þeim tilgangi fara fram í skemmtilegu og afslöppuðu umhverfi þar sem  börnum og unglingum er séð fyrir útbúnaði ef þörf er á. Stofnunin hefir vaxið hratt og styður nú líka við bakið á fótbolta og hokkí. Árið 2001 var 54 holu móti, the Paul Lawrie Invitational bætt við the Tartan Tour.

Eftir að sigra á Opna breska hlaut Lawrie keppnisrétt á PGA Tour í nokkur tímabil, en hélt líka áfram að keppa á Evrópumótaröðinni.  Hann átti litlum árangri að fagna í Bandaríkjunum þegar 5 ára undanþága hans á PGA Tour rann sitt skeið í lok 2004 keppnistímabilsins, og hann hélt ekki korti sínu.

Lawrie var síðasti kylfingurinn frá Evrópu til að sigra á risamóti allt til ársins 2007 þegar eyðmerkurgöngunni lauk með sigri  Írans Pádraig Harrington á Opna breska. Lawrie var síðasti kylfingurinn frá Bretlandi til þess að vinna risamótatitil þar til Graeme McDowell vann Opna bandaríska 2010. Open. Lawrie er enn síðasti kylfingur frá Skotlandi til að sigra á risamóti, þ.e. það er enginn skoskur kylfingur sem hefir sigrað á risamóti frá árinu 1999 þ.e. í 13 löng ár (og enginn í sjónmáli heldur sem gæti sigrað???).

Á Opna breska 2009 hlaut Lawrie áttunda albatrossinn sem fengist hefir í 150 ára sögu keppninnar.

Helsti styrktaraðili Paul Lawrie sem stendur er Kalixa, fyrirfram greitt MasterCard, en hann skrifaði undir samning til tveggja ára 13. janúar 2010.

Þann 27. mars 2011 vann Lawrie Open de Andalucía de Golf og átti 1 högg á Johan Edfors. Lawrie  lauk keppni 12 höggum undir pari og lauk þar með 9 ára sigurleysi á Evrópumótaröðinni.

Lawrie með verðlaunagrip sinn eftir sigurinn í Qatar.

Í febrúar 2012, vann Lawrie Commercialbank Qatar Masters í annað sinn á ferli sínum, eftir að hafa áður unnið keppnina 1999. Lawrie varð aðeins 2. kylfingurinn til þess að hafa sigrað í mótinu oftar en 1 sinni ásamt Adam Scott. Þetta var 7. sigur Lawrie á European Tour (Evrópumótaröðinni eða evrópsku mótaröðinni eins og hún er líka kölluð). Mótið var stytt í 54 holu mót vegna sterkra eyðimerkurvinda, sem pirruðu keppendur líka á 1. og 2. hring. Lawrie átti 4 högg á Jason Day og Peter Hanson, eftir lokahring upp á 65 högg.

Lawrie sleppti Opna bandaríska 2012 í tilraun til þess að komast í 2012 Ryder bikars lið Evrópu. Hann hefir gefið til kynna að hann muni taka að sér hlutverk fyrirliða Ryder Cup liðs Evrópu 2014 verði honum boðin staðan. Hann er s.s. vel kominn að þeirri stöðu eftir frábæra frammistöðu í Ryder bikars liði Evrópu í Medinah.

Að lokum þessarar stuttu samantektar um Paul Lawrie er e.t.v. rétt að geta nokkurrar starfsemi hans utan keppnisgolfsins. Lawrie er mjög umhugað um framtíð golfsins og börn og unglinga í golfi eins og áður er minnst á hvað snertir stofunun hans. Paul Lawrie Foundation hefir séð til þess að þúsundir ungmenna hafa hlotið golfkennslu. Nú í ár, 2012 keypti hann líka Aspire Golf Centre í Aberdeen (sem nú heitir Paul Lawrie Golf Centre). M.a. vegna þessa var hann talinn vera í 37. sæti yfir valdamestu manna í bresku golfi af the Golf Club Managers’ Association’s Golf Club Management Magazine.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort Paul Lawrie hlýtur fyrirliðastöðuna í Ryder bikarnum 2014 eða hvort það verður nafni hans Paul McGinley, sem einnig hefir verið nefndur í því sambandi, eða hvort það verður hvorugur?

Heimild: Wikipedia