Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 16. 2014 | 07:00

Hver er kylfingurinn: Martin Kaymer? (1/7)

Þýski kylfingurinn Martin Kaymer sigraði í gær í 2. sinn í risamóti , þ.e. Opna bandaríska. Þessi greinasería hefir birtst fyrr á árinu þegar hann sigraði  í 2. sinn á PGA mótaröðinni bandarísku, þá á The Players mótinu, sem af mörgum er álitið vera 5. risamótið, en birtist nú að nýju í tilefni þess að hann sigraði í 2. risamóti sínu.

Hver er þýski kylfingurinn Martin Kaymer og hvernig hefir ferill hans verið fram að þessu?  Því verður reynt að svara í nýrri 7 hluta greinaseríu og fer 1. greinin hér á eftir, sem er örlítið yfirlit yfir ýmsa hápunkta á ferli Kaymer:

Martin Kaymer fæddist 28. desember 1984 í Düsseldorf í Þýskalandi og er því 29 ára. Hann er 1,84 m á hæð og 74 kg þungur. Þegar hann er í Þýskalandi býr hann í Mettmann, sem er lítið þorp fyrir utan Düsseldorf.

Kaymer gerðist atvinnumaður 2005. Hann leikur bæði á Evrópumótaröðinni og PGA Tour og hefir á atvinnumannsferli sínum unnið 20 sigra, þar af 10 á Evrópumótaröðinni.  Meðal flottustu sigra hans eru sigur hans á eina risamóti hans til þessa PGA Championship, sem kom árið 2010 og nú sigurinn í gær á The Players, 11. maí 2014!  Kaymer er aðeins 2. Þjóðverjinn til þess að vinna risamót á eftir Bernhard Langer.

Annað sem Kaymer er þekktur fyrir er að hafa sigrað á WGC-HSBC Champions árið 2011, en með því varð hann aðeins 10. kylfingurinn í golfsögunni, sem sigrað hefir bæði á heimsmóti og í risamóti.

Einna þekktastur er Kaymer þó e.t.v. fyrir að hafa verið í kraftaverka Ryder bikars liði Evrópu 2012 í Medinah en þar sökkti hann mikilvægu pútti á 18. flöt í tvímenningsleik sunnudagsins, sem innsiglaði það að Ryder bikarinn varð um kjurrt í Evrópu í 2 ár til viðbótar.  Í ár er Ryder bikars ár og er vitað að Kaymer þyrstir að spila á Gleneagles. Með frammistöðu eins og í gær er ekki ólíklegt að svo verði!!!

Mörgum fannst kominn tími á Kaymer, þ.e. tími á að hann sigraði í móti,  en hann hefir verið á hraðbyri niður heimslistann var kominn niður í 61. sætið á heimslistanum en fór upp um 33 sæti vegna sigursins á The Players og er nú í 28. sæti!!!

Kaymer hefir þó áður náð því að verða nr. 1 á heimslistanum en það gerðist 27. febrúar 2011 þegar hann varð í 2. sæti á Accenture heimsmótinu í holukeppni, en hann missti þó toppsætið á heimslistanum 8 vikum síðar í hendur á Lee Westwood.