Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 18. 2018 | 07:30

Hver er kylfingurinn (2018): Marc Leishman?

Marc Leishman er nafn sem ekki öllum golfáhugamanninum er kunnugt, ekki nema kannski þeim sem fylgjast hvað best með.

Hann átti glæsi 1. hring á AT&T Byron Nelson 2018 þar sem hann lék á 10 undir pari, 61 höggi!!!

En hver er kylfingurinn?

Marc Leishman fæddist í Warrnambool í Victoriu, Ástralíu þann 24. október 1983 og er því 34 ára . Sem stendur spilar Leishman á PGA Tour, en hann hlaut nýliðaverðlaunin á mótaröðinni árið 2009. Hann var fyrsti Ástralinn til þess að vinna þau verðlaun.

Leishman fjölskyldan – Marc ásamt eiginkonu sinni Audrey og 2 af 3 börnum

Leishman átti afar farsælan áhugamannsferil í Ástralíu, þar sem hann vann mörg unglingamót. Hann varð klúbbmeistari í Warrnambool Golf Club Championship 13 ára, en hann spilaði þá í sama flokki og pabbi hans. Árið 2001 vann hann the Victorian Junior Masters, the South Australian Junior Masters og var piltameistari Victoriu.

Leishman gerðist atvinnumaður í golfi 2005. Hann spilaði á the Von Nida Tour árið 2006 og vann tvö mót og varð efstur á stigalista mótaraðarinnar.

Árið 2007 var Leishman nýliði á the Nationwide Tour og varð í 92. sæti á peningalistanum. Hann vann fyrsta titil sinn á Nationwide Tour árið 2008 á WNB Golf Classic og jafnaði met Chris Smith með það að eiga 11 högg á næsta keppanda. Leishman lauk árinu í 19. sæti á peningalistanum og vann kortið sitt á PGA Tour fyrir keppnistímabilið 2009.

Leishman var valinn nýliði ársins árið 2009 eftir að verða þrívegis meðal efstu 10 á mótum þ.á.m. varð hann í 2. sæti á eftir Tiger Woods á BMW Championship, Leishman komst þ.a.l. á Tour Championship. Hann lauk árinu 2009 í 53. sætinu á peningalistanum.

Marc Leishman 6. desember 2015 þegar hann sigraði á Nedbank Golf Challenge, sem er mót sem Evrópu- og Sólskinstúrinn standa sameiginlega að.

Hann varð í annað sinn í 2. sæti á PGA Tour á Farmers Insurance Open árið 2010. Hann lauk árinu á topp-100 á peningalistum keppnistímabilanna 2010 og 2011. Hann spilaði á BMW Championship á báðum keppnistímabilum.

Leishman vann fyrsta mótið sitt á PGA Tour eftir að hafa leikið í 96 mótum á mótaröðinni 12. júní 2012 þegar hann sigraði the Travelers Championship. Fyrir lokahringinn var hann 6 höggum á eftir forystunni en vann efstu menn með 1 höggi. Lokahringur hans í mótinu var einkar glæsilegur upp á 62 högg, en þar missti hann hvergi högg og fékk 8 fugla. Þetta var besti hringur golfferils Leishman til þessa. Hann varð 2. Ástralinn til þess að vinna mótið; en sá fyrsti var hvíti hákarlinn: Greg Norman.

Segja má að 2013 hafi veirð ár Leishman. Það byrjaði vel hjá honum, m.a. var hann í forystu á The Masters risamótinu eftir opnunarhringinn, ásamt Sergio Garcia. Báðir voru á 6 undir pari, 66 höggum. Fyrir lokahringinn á Masters var hann 2 höggum á eftir forystumönnunum. Hann lauk keppninni i 4. sæti, sem er besti árangur hans í risamóti til þessa.

Árið 2013 valdi Nick Price Leishman einnig í Alþjóðaliðið og með ofangreindum góðum árangri í The Masters tókst Leishman rækilega að vekja athygli á sér.

Marc Leishman

Í júlí 2015, á Opna breska á St Andrews, varð Leishman í 2. sæti eftir að hafa tapað í 4 holu, 3 manna bráðabana (Zach Johnson og Louis Oosthuizen), í móti sem þurfti að ljúka á mánudegi vegna veðurs. Eftir að hafa verið nálægt því að komast ekki gegnum niðurskurð átti Leishman frábæra hringi upp á 64 og 66 og deildi síðan 2. sætinu með Oosthuizen. Seinna um árið 2015 sigraði Leishman í Nedbank Golf Challenge, sem telst mót bæði á Evróputúrnum og Sólskinstúrnum suður-afríska, þar sem báðar mótaraðir standa fyrir mótinu.

Þann 19. mars 2017 sigraði Leishman í 2. PGA Tour móti sínu þ.e.  Arnold Palmer Invitational og 17. september 2017 bætti hann við 3. sigri sínum í PGA tour móti þ.e.  BMW Championship með nýju heildarskors mótsmeti −23.

Alls hefir Leishman sigrað í 11 mótum á atvinnumannsferli sínum, en auk framangreindra 3 sigra á PGA Tour og sigurs á 1 Evrópumótaröðinni og  Sólskinstúrnum suður-afríska hefir hann sigrað í 1 móti á Web.com Tour auk 6 annarra sigra í atvinnumannsmótum.

Sem stendur er Leishman í 16. sæti heimslistans, en það gæti breyst sigri hann á AT&T mótinu á sunnudaginn!!!

Að lokum um einkalíf Marc Leishman:

Leishman er kvæntur Audrey sinni og þau eiga 3 börn. Hann býr með fjölskyldu sinni á Virginia Beach, í Virginiu, Bandaríkjunum.

Þann 31. mars 2015 var Audrey með öndunarerfiðleika og var sett í dá og eitursjokk sem hún hlaut fór að hafa áhrif á innri líffæri hennar, þannig að henni voru gefin 5% líkur á að lifa þetta af. Um miðjan apríl 2015 hafði hún þó náð sér nógu vel til að snúa aftur heim og Leishman sem sleppti Masters til þess að vera með Audrey hélt áfram á túrnum í New Orleans.

Golf 1 fjallaði um atvikið á sínum tíma – Sjá með því að SMELLA HÉR:

Heimild: Wikipedia