Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 13. 2013 | 18:30

Hver er kylfingurinn: Kevin Streelman?

Einn þeirra, sem vakti athygli á The Players mótinu í gær með góðri frammistöðu er bandaríski kylfingurinn Kevin Streelman.  Hann deildi 2. sætinu ásamt nýliðanum sænska David Lingmerth og gamla brýninu Jeff Maggert, sem sett hefði aldursmet hefði hann sigrað The Players mótið, 49 ára.

En hver er kylfingurinn Streelman?

Kevin Streelman fæddist í Winfield, Illinois, 4. nóvember 1978 og er því 34 ára. Han útskrifaðist frá Wheaton Warrenville South High School 1997 og frá Duke University 2001.

Streelman gerðist atvinnumaður í golfi eftir útskrift frá Duke, 2001. Hann spilaði 4 ár í bandaríska háskólagolfinu þ.á.m. með félaga sínum á PGA Tour, Leif Olson.

Besti árangur hans á mótum PGA til skamms tíma var þegar hann var T-1 eftir 1. hring á Opna bandaríska risamótinu 2008.  Í mars 2009 fór hann í 1. sinn á topp-100 á heimslistanum.  Hann var svona leikmaður sem ekki ber mikið á, en er alltaf duglegur að koma sér í gegnum niðurskurð.

Það var síðan á þessu ári, í 153. PGA Tour mótinu sem hann tók þátt í, að hann loksins vann 1. mótið sitt á PGA Tour, en það var Tampa Bay Championship, 17. mars 2013, þar sem hann átti 2 högg á Boo Weekley.

Og nú varð hann T-2 á sjálfu the Players mótinu og hlaut um $ 700.000 í verðlaunafé.