Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 2. 2012 | 10:00

Hver er kylfingurinn: Ken Venturi? (1/2) 2. grein af 24 um „The Match“

Hér næstu daga verða 4 kylfingar kynntir sem allir tóku þátt í „The Match”, sem Mark Frost hefir fært í bók.

Ken Venturi er einn aðalheimildarmaðurinn og einn af 4 aðalsöguhetjum í bók Mark Frost: “The Match – The day the game of golf changed forever.”    Hann var annar af 2 áhugamönnunum (hinn var Harvie Ward) sem kepptu við heimsins bestu atvinnumenn þess tíma (Ben Hogan og Byron Nelson) vegna veðmáls milljónamæringanna Eddie Lowery og George Coleman, árið 1956, en Eddie taldi að enginn gæti sigrað tvo starfsmenn sína, áhugamennina Venturi og Ward í fjórleik.  Coleman tók veðmálinu og mætti með þá Ben Hogan og Byron Nelson, sem er líkt og hann hefði mætt með Rory McIlroy og Luke Donald til að keppa við einhverja áhugamenn í dag.

Hér verður Ken Venturi fyrstur kynntur til sögunnar, en þess mætti geta að hann var í feykiskemmtilegu viðtali við Feherty á Golf Channel nú fyrr á árinu og e.t.v. er myndskeiðið betri kynning á Venturi en nokkuð annað og má sjá það, með því að SMELLA HÉR: 

Bandaríski kylfingurinn Kenneth Venturi, alltaf kallaður Ken, fæddist 15. maí 1931 í San Francisco og varð því 81 árs, á árinu. Hann er fyrrum atvinnukylfingur á PGA-mótaröðinni og golfsjónvarpsfréttamaður.

Ken, (sem er 1.83 m á hæð og 77 kg þungur) vakti fyrst athygli (fyrir 56 árum) þ.e. árið 1956 þegar hann sem áhugamaður, lenti í 2. sæti á The Masters, eftir að hafa verið í efsta sæti eftir fyrsta hringinn. Á lokahringnum kom hann inn á 80 höggum og missti þar með niður 4 högga forystu, sem varð til þess að hann varð af sigrinum. Hins vegar er þetta einn besti árangur áhugamanns í sögu The Masters. Mörgum árum síðar var leikur hans borinn saman við það þegar leikur Greg Norman brotnaði niður á seinni 9, árið 1996. (Nákvæmari samsvörun mætti finna í leik Rory McIlroy, á the Masters vorið 2011, en hann kom inn á 80 höggum á 4. hring og missti niður 4 högga forystu, alveg eins og Ken Venturi gerði 55 árum fyrr, sem sýnir bara að lífið endurtekur sig í “paródíum”; þ.e. endurtekur sig, bara ekki alltaf eins).

Snemma á 6. áratugnum var Venturi nemandi hins mikla Byron Nelson og var einnig undir áhrifum spilafélaga síns Ben Hogan. Vegna fínstillingar golfleiks Venturi og gríðarlegra hæfileika hans var hann reglulega sigurvegari á upphafsdögum PGA-mótaraðarinnar eftir að hann gerðist atvinnumaður í lok árs 1956.  Hann komst nærri því að sigra Masters 1958 og 1960 en í bæði skiptin hafði Arnold Palmer betur.