Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 24. 2013 | 11:00

Hver er kylfingurinn: Ken Duke?

Ken Duke sigraði fremur óvænt í gær á the Travelers mótinu í Conneticut og ekki víst að nafn hans sé kunnuglegt golfáhangendum, jafnvel þeim sem telja sig fylgjast vel með. En Duke er búinn að vera lengi að. Hér verður leitast svara við því hver kylfingurinn Ken Duke sé?

Kenneth Wootson Duke fæddist 29. janúar 1969 og er því 44 ára.

Duke fæddist í Hope, Arkansas.  14 ára var hann greindur með hryggskekkju (ens. scoliosis). The Arkansas Children´s Hospital þ.e. Arkansas barnaspítalinn í Little Rock, Arkansas mældi um 26% sveigju á hryggnum og leiddi það til þess að hann var að vera í spelkum 23 tíma dags. Tveimur árum síðar þegar sveigjan náði 51% gekkst hann undir skurðaðgerð. Án aðgerðarinnar hefði pressan á lungu og hjarta orðið lífshættuleg. Skurðlæknarnir spengdu saman hryggjarliði á 16 þumlunga svæði í hryggnum til þess að stuðla að því að hryggurinn réttist af.  Það sem var svo undarlegt var að aðeins nokkrum mánuðum síðar sneri Duke aftur í golflið menntaskóla síns – með spelkur – og vann höggleikskeppni í svæðamóti. Árið 2009 stofnaði læknavísindadeild Arkansas háskóla (ens. University of Arkansas – Medical Sciences)  sjóð þ.e. The Ken Duke Endowed Chair in Scoliosis. Peningar úr sjóðnum, sem stofnaður var af Duke, renna til aðgerða og til lækninga á hryggskekkjum, æxlum og hryggbrotum.

Duke þakkar pabba sínum að hafa komið sér af stað í golfinu, en segir að goðsagnagolfkennarinn Bob Toski hafi breytt sveiflu hans og lífi.  Hann segir að ein mesta uppifunin á ferlinum hafi verið að fá að spila hring á Augusta National árið 2009 með Toski, sem þá var 82 ára.

Ken Duke gerðist atvinnumaður fyrir tæpum 20 árum þ.e. 1994.  Hann komst fyrst inn á PGA Tour 2004 en náði ekki að halda korti sínu og hvarf því aftur til leiks á Nationwide Tour. Árið 2006 var ár Duke því þá náði hann toppi peningalista Nationwide Tour eftir m.a. sigur í BMW Charity Pro-Am at The Cliffs. Hann vann sér því inn keppnisrétt á PGA Tour fyrir árið 2007.

Eftir frekar slaka byrjum á PGA á 2007 keppnistímabilinu, gekk um stund vel og hann náði að verða 4 sinnum meðal efstu 10 og komst þar með inn á topp-100 á heimslistanum.

Árið 2011 tryggði Duke enn einu sinni kortið sitt á PGA Tour þegar hann sigraði á Nationwide Tour Championship og er þetta 2. sigur hans á Nationwide Tour. Með sigrinum fór hann úr 36. sæti peningalistans í 7. sætið og kortið á PGA Tour var aftur hans.

Eftir að hafa spilað í 187 mótum á PGA Tour og orðið 3 sinnum í 2. sæti vann Duke fyrsta PGA Tour mót sitt í gær, þ.e. Travelers Championship. Hann vann Chris Stroud á 2. holu bráðabana.

Að lokum mætti geta þess um Duke að hann er mikill veiðimaður og aðdáandi kántrí tónlistar. Aðalíþróttahetja Duke er körfuboltakappinn Larry Bird.