Ragnheiður Jónsdóttir | september. 5. 2017 | 09:30

Hver er kylfingurinn: Justin Thomas (í sept/2017)?

Bandaríski kylfingurinn Justin Thomas sigraði nú í gærkvöldi í 6. sinn á PGA Tour mótaröðinni og hefir alls sigrað 7 sinnum á atvinnumannsferli sínum

Thomas er þá á unga aldri þegar búinn að sigra á sex PGA Tour mótum, en hann vann fyrsta PGA Tour mótið sitt sunnudaginn 1. nóvember 2015, CIMB Classic og tókst að verja titilinn árið eftir þ.e. 23. október 2016.

Þriðji sigurinn kom í byrjun þessa árs, 8. janúar 2017en það var sigur á  SBS Tournament of Champions á Hawaii. Viku síðar bætti hann við 4. sigrinum á Sony Open í Hawaii.

Þann 13. ágúst 2017 vann Justin síðan stærsta sigur sinn til þess, þ.e. fyrsta risamótssigur sinn á PGA Championship,

Svo í gær, 4. september 2017  vann hann 6. PGA Tour á Dell Technologies Championship.

Greinar um Thomas sjást nú alltaf oftar í golffréttum enda hér um ungan og feykiefnilega kylfing að ræða. Þvílíkur glæsikylfingur – búinn að sigra 4 sinnum á PGA Tour á einu og sama keppnistímabilinu!!!

Margir kunna þó enn að spyrja: Hver er kylfingurinn: Justin Thomas?

Justin Thomas fæddist í Louisville, Kentucky, 29. apríl 1993 og er því aðeins 24 ára og sá yngsti sem hlotið hefir kortið sitt á PGA Tour.

Thomas lék í bandaríska háskólagolfinu með golfliði the University of Alabama, þar sem hann vann einstaklings-keppnina 6 sinnum.

Hann spilaði líka í NCAA Division I Championship liðinu árið 2013.

Thomas vann m.a. Haskins Award árið 2012 sem besti kylfingurinn í háskólagolfinu.

Sem áhugamaður lék Thomas í Wyndham Championship á PGA Tour og varð 3. yngsti kylfingurinn til þess að komast í gegnum niðurskurð á PGA Tour móti aðeins 16 ára, 3 mánaða og 24 daga.

Thomas gerðist atvinnumaður í golfi 2013, aðeins 20 ára og komst strax á Web.com Tour gegnum úrtökumót.
Hann vann fyrsta mótið sem hann lék í sem atvinnumaður þ.e. Nationwide Children’s Hospital Championship, 2014 (sem er 7. mótið sem hann hefir sigrað í sem atvinnumaður í golfi og reyndar hans fyrsta).

Justin Thomas, varð í 5. sæti á Web.com Tour Finals í september 2014 og var ungur (21 árs) kominn með fullan keppnisrétt á PGA Tour; í fyrsta skipti keppnistímabilið 2014-2015. Það er því aðeins á 2. keppnistímabili sínu sem Thomas sigrar á PGA Tour móti, sem er stórglæsilegt í þeirri miklu samkeppni sem er á þessari bestu mótaröð heims!

Litið er á Thomas sem mikils framtíðarmanns í bandarísku golfi – enda miklir golfhæfileikar á ferð þar sem Thomas er.

Geri aðrir betur 7. sigrar á bandaríska PGA (þ.á.m. 1 á risamóti) fyrir 25 ára aldurinn!!!