John Huh
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 29. 2012 | 08:00

Hver er kylfingurinn: John Huh?

Huh? Kannast einhver við kylfinginn John Huh?  Hann deilir nú 2. sæti á Farmers Insurance Open (eftir 3. dag 2012 mótsins) með nafna sínum Rollins. Sem stendur er John Huh nr. 549 á heimslistanum yfir bestu kylfinga heims, en það gæti nú breyst á mánudaginn ef fram fer sem horfir. Þetta er aðeins 2. PGA Tour mótið sem þessi kóreansk-ameríkanski nýliði á mótaröðinni tekur þátt í…. og frammistaða hans á 1. hring Farmers Insurance hefir vakið eftirtekt. Þar kom Huh inn á 64 höggum á hring þar sem hann fékk 3 erni!

John Huh

John Huh fæddist 21. maí 1990 í New York og er því 21 árs. Huh veit það eflaust ekki en hann á sama afmælisdag og Sveinn Snorrason í GK, sem var elsti þátttakandi í Íslandsmóti eldri kylfinga 2011, en nákvæmlega 65 ár eru á milli þeirra.

Huh ólst upp í Suður-Kóreu en fluttist til Chicago, þar sem hann bjó í 3 ár og var í menntaskóla í Kaliforníu, m.a. í golfliði skólans, en þótti ekkert sérstakur kylfingur. Hann var í Cal State-Northridge í nokkrar vikur áður en hann sneri heim til Kóreu og spilaði um skeið á kóreanska PGA túrnum og var bestur þar 2010. Við það jókst sjálfstraustið – hann flaug í gegnum Q-school PGA í fyrstu tilraun varð T-27 og meðal síðustu af þeim 29 kylfingum, sem komust í gegnum Q-school s.l. desember. Nú er hann hins vegar í 2. sæti á einu fyrsta móti ársins á túrnum fyrir lokadaginn, þar sem samkeppnin eru mun skólaðri og reyndari kylfingar.

Hann reynir greinilega að „blokkera“ allt út því eftir 3. hring sagðist hann ekkert hafa tekið eftir að hann hefði sett niður 7 fugla – nokkuð sem ekki þarf að blokkera… miklu frekar þá 3 skolla sem hann fékk á hringnum líka og eru þess valdandi að hann er ekki nær Kyle Stanley, sem leiðir.

„Ég veit bara að ég setti niður 2 góð pútt,“ sagði Huh. Það sem hann átti við var 46 feta púttið á 2. holu og 37 feta púttið á 16. holu, bæði fyrir fuglum.

„Ég er bara að reyna að læra,“ sagði Huh.

Þannig að hvað lærði hann í nótt? „Ég lærði að ég þarf að setja niður mörg pútt!“

Nafn Huh vekur athygli en íslensk þýðing á því er Ha? Þannig að Bandaríkjamönnum og öllum enskumælandi finnst nafn Huh fyndið! Huh er vanur því að verða fyrir stríðni – í menntaskóla fékk hann Huh? meðferðina oft.

„Það var pirrandi,“ sagði hann. „Það var gert mikið grín að mér.“

En nú lítur hann á nafnið sem jákvæðan þátt sjálfs sín – það vekur athygli á honum og eins tekur hann eftir að sumir PGA kylfingar nýta sér skrýtin nöfn sín til fullnustu eins og Boo Weekley – en áhangendur hans eru þekktir fyrir að hrópa „Boo“ til að hvetja sinn mann áfram.

Kannski að áhangendur Huh kalli Huh? í spurnartón og forundran þegar hann missir af pútti?

Huh náði strax niðurskurði í 1. mótinu sem hann tók þátt í á túrnum, Sony Open. Þar var hann m.a. með hring upp á 65 högg og lauk leik í 53. sæti. Hann segir markmið sitt vera að komast í gegnum niðurskurði og fá að halda kortinu sínu. Hann þarf varla að hafa áhyggjur ef hann heldur áfram því sem hann er að gera í augnablikinu því hann leiðir í La Jolla hvað varðar nákvæmni í drævum og hann er í 2. sæti hvað snertir boltaslátt. Eins leiðir hann í löngum púttum settum niður þ.e. mestri lengd pútta settum niður þökk sé púttunum, sem hann setti niður í nótt.

Að lokum er kannski vert að líta á hvað er í uppáhaldi hjá Huh?

Yuna Kim er í uppáhaldi hjá John Huh.

Huh finnst mexíkanskur matur bestur. Uppáhaldsíþróttamaður hans er listdansskautahlauparinn Yuna Kim. Uppáhaldsíþróttalið hans eru Los Angeles Dodgers og the Los Angeles Lakers. Uppáhaldsborgin er höfuðborg Kóreu, Seoul. Uppáhaldstónlistin er með hljómsveitinni Girl Generation. Uppáhaldsvefsíðan er naver.com. Twitter síða hans er @huh979. Uppáhalds app-ið er Angry Birds. Huh er yfirleitt með „Trail Mix“ sem nesti í pokanum, en það er blanda af þurrkuðum ávöxtum, korni, hnetum og súkkulaði. Meðal þess sem honum myndi langa til að prófa er fallhlífarstökk.
Uppáhaldsmálsháttur hans er „The pain of sacrifice is nothing compared to the pain of regret.“ (ísl: „Sársauki fórna er ekkert samanborið við sársauka eftirsjár.“)Að síðustu… John Huh er nafn sem vert er að leggja á minnið, því líklega eigum við eftir að sjá meira til þessa unga, frábæra kylfings með fallegu golfsveifluna, sem sjá má með því að smella

HÉR: GOLFSVEIFLA JOHN HUH

Heimild: Golfweek