Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 26. 2014 | 14:30

Hver er kylfingurinn: Joanna Klatten?

Joanna Klatten sigraði í dag NSW Open í Oatlands golfklúbbnum í New South Wales, Ástralíu.  Fram til dagsins í dag hefir besti árangur hennar á Evrópumótaröð kvenna verið 4. sætið og lægsti hringur hennar í atvinnumannamóti til þessa verið 65 högg!  Hún bætti því hvorutveggja í dag þegar hún setti nýtt vallarmet í  Oatlands golfklúbbnum upp á 9 undir pari, 63 högg, varð í 1. sæti og nældi sér í fyrsta sigur sinn á Evrópumótaröð kvenna.  En hver er Joanna Klatten?

Joanna Klatten

Joanna Klatten

Joanna fæddist í París 2. mars 1985 og er því 28 ára.

Joanna byrjaði að spila golf 8 ára og það var fjölskylda hennar sem kom henni af stað í golfinu. Joönnu finnst líka gaman af því að skokka, ferðast, horfa á kvikmyndir, hlusta á tónlist og fara á óperusýningar. Hún er með gráðu í viðskipta- og markaðsfræði frá College of Charleston í Suður-Karólínu, en þaðan kom hún frá  Georgia State University, en Klatten spilaði í bandaríska háskólagolfinu.  Í Frakklandi er Johanna í Golf de St. Cloud (Sjá kynningu Golf 1 á St. Cloud með því að SMELLA HÉR: )

Joanna átti góðan áhugamannaferil.  Hún varð m.a. í 2. sæti á  franska meistaramóti áhugamanna 2002. Hún spilaði fyrir Frakklandshönd í Evrópumóti klúbbmeistara (ens.: European Team Championships) á árunum 2003, 2004, 2006 og 2007. Hún varð fyrsti kvenkylfingurinn frá  Georgia State University til þess að keppa í  NCAA championship árið 2006 og hlaut first-team All-CAA heiðursviðurkenninguna áirð 2007. Klatten varð í 5. sæti árið  2006 í  NCAA West Regionals, sem var 2. besti árangurinn í sögu skólans. Joanna setti líka vallarmet 63 (-9) þegar hún sigraði í  Coupe Cachard í  Grand Prix de St. Cloud, árið 2006.

Fyrsta ár hennar á Evrópumótaröð kvenna var 2011. Það keppnistímabil náði hún aðeins að vera með 2 topp 20 árangra; þ.e. varð T-11 á Open de Espana Femenino og varð síðan T-12 á Deutsche Bank Ladies Swiss Open. Hún varð í 82. sæti á peningalistanum og hélt korti sínu fyrir næsta ár.

Árið 2012 spilaði Klatten í 19 mótum og varð þrívegis meðal efstu fimm og það í röð: Hún varð T-5 á Raiffeisenbank Prague Golf Masters, T-4 á South African Women’s Open og T-4 á Ladies Irish Open. Hún náði lægsta skori sínu í atvinnumannamóti (til dagsins í dag) 65 (-7) á 2. hring  Omega Dubai Ladies Masters en þar lauk hún keppni T-24. Árið 2012 vann hún sér inn €84,572.79, (og varð nr. 25 á peningalistanum): sem var mjög dramatísk framför frá fyrsta ári hennar á Evróputúr kvenna (ens. LET= Ladies European Tour).

Í fyrra 2013 átti hún jafnvel enn betra tímabil þar sem hún varð í 13. sæti á peningalista LET og vann sér inn 92,879.88.   Og það lítur út fyrir að árið 2014 verði henni ennþá betra …. a.m.k. byrjar það vel!