Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2015 | 13:00

Hver er kylfingurinn: Jimmy Walker?

Fyrir aðeins 2 árum, 2013,  voru ekki margir sem könnuðust við kylfinginn Jimmy Walker.  Nú eru fleiri og fleiri sem vita um hvílíkur snilldarkylfingur er annars vegar þar sem Jimmy Walker fer.  Honum tókst á stórkostlegan hátt að verja titil sinn á Sony Open, átti heil 9 högg á næsta mann, Scott Piercy, þann 18. janúar 2015.

Það hefir allt verið upp á við fyrir Walker frá því hann vann fyrsta mótið sitt Frys.com Open, 13. október 2013.  Sigurinn var hans fyrsti sigur á PGA Tour. Síðan þá hefir Walker sigrað í 3 öðrum PGA Tour mótum og verið í Ryder bikars liði Bandaríkjanna 2014.

En, hver er kylfingurinn, Jimmy Walker?

Jimmy Walker

Jimmy Walker

Jimmy Walker fæddist í Oklahoma City, Oklahoma 16. janúar 1979 og er því 36 ára. Eftir menntaskóla lék hann golf með golfliði Baylor University í Waco, Texas. Hann gerðist atvinnumaður í golfi strax eftir háskóla, árið 2001. Sem stendur spilar Walker á PGA Tour en var m.a. á Nationwide Tour (nú Web.com Tour) 2003 og 2004. Árið 2004 kynntist hann eiginkonu sinni, Erin, sem þá var sjálfboðaliði á Web.com móti. Þau eru í dag gift og eiga 2 stráka; Beckett og Mclaine.   Það ár (2004) var Walker sigurvegari peningalista Nationwide Tour og var valinn leikmaður ársins á þeirri mótaröð og þannig vann hann sér kortið sitt á PGA Tour.  Það ár vann hann tvö mót á Nationwide Tour: BellSouth Panama Championship og Chitimacha Louisiana Open.  Heimaklúbbur Walker er Cordillera Golf Club í Boerne, Texas.

Fjölskyldumaðurinn Jimmy Walker ásamt eiginkonu sinni Erin og tveimur börnum

Fjölskyldumaðurinn Jimmy Walker ásamt eiginkonu sinni Erin og strákum.

Walker spilaði  aðeins í 9 PGA Tour mótum árið 2005, vegna meiðsla og náði í gegnum niðurskurð í 6 þeirra. Árið 2006 spilaði hann í 21 móti á PGA Tour og  náði aðeins 9 sinnum niðurskurði. Hann náði ekki að halda kortinu sínu á PGA Tour og var aftur kominn á Nationwide Tour 2007. Hann varð í 25. sæti á peningalista Nationwide Tour 2007 og fékk aftur kortið sitt á PGA Tour 2008. Árið 2007 vann hann 1 sinni á Nationwide þ.e. á  National Mining Association Pete Dye Classic. Hann hélt sér síðan á PGA Tour með því að komast í gegnum Q-school 2008.

Walker lauk 2009 keppnistímabilinu í 125. sæti á peningalistanum, var heppinn og náði sér þar með í síðasta kortið sem í boði var á PGA Tour.  Árið 2010 náði hann besta árangri sínum til þess tíma en það var 3. sætið á  Valero Texas Open. Hann varð þar með í 103. sæti á peningalistanum og hélt sér á PGA Tour 2011. Það ár 2011 átti hann besta keppnistímabil sitt á PGA Tour. Hann varð í 50. sæti á FedEx Cup stigalistanum og var með 4 topp10-árangra. Hann fylgdi eftir frábæru keppnistímabili 2011 með öðru góðu ári 2012.  Það ár varð Walker 64. á  FedEx Cup stigalistanum og átti 6 topp-10 árangra, þ.á.m. varð hann tvisvar sinnum í 4. sæti.

Fyrsti sigurinn á PGA Tour loksins í höfn; 13. október 2013

Fyrsti sigurinn á PGA Tour loksins í höfn; 13. október 2013

Þann 13. október 2013 kom síðan fyrsti sigur Walker á PGA Tour á Frys.com Open, eftir 9 ár og 188 mót sem hann hafði tekið þátt á PGA Tour. Sá sigur veitti honum undanþágu til þess að spila á Hyundai Tournament of Champions í ársbyrjun 2014, og eins fékk hann í fyrsta sinn að taka þátt í draumamóti allra kylfinga The Masters risamótinu.  Walker varð T-8 á Masters 2014 (og hefir því virkilega gert það besta úr öllum tækifærum sem honum hafa hlotnast).  Með sigri á Frys.com  tryggði hann sér auk þess keppnisrétt á PGA Tour til ársloka 2016, sem nú hefir framlengst a.m.k. um 2 ár þ.e. til 2018 vegna annarra sigra hans.

Annar sigur Jimmy Walker kom 12. janúar 2014, þegar hann sigraði Sony Open á Hawaii og 3. sigurinn komm minna en mánuði síðar þ.e. á AT&T Pebble Beach National Pro Am 9. febrúar 2014.  Walker tókst síðan að verja titil sinn eins og áður segir á Sony Open, 18. janúar 2015.

Jimmy Walker er í dag í 13. sæti heimslistans.