Ragnheiður Jónsdóttir | september. 23. 2013 | 15:00

Hver er kylfingurinn: Henrik Stenson?

Henrik Stenson vann í gær Tour Championship og varð við það rúmum 1,5 milljarði íslenskra króna ríkari (þ.e. ef bónuspotturinn sem hann hlaut upp á rúman 1,368 milljarð er bættur við 173 milljónirnar sem hann fékk fyrir sigurinn á Tour Championship.) En hver er þessi sænski kylfingur sem kominn var niður í 300. sætið á heimslistanum, en hefir verið að rífa sig upp og spila svona glæsilegt golf í ár?

Henrik Stenson er fæddur 5. apríl 1976 í Stokkhólmi, í Svíþjóð og er því 37 ára. Hann á sem stendur lögheimili í Dubai, í Sameinuðu Furstadæmunum. Hann er 1.85 m á hæð og 90 kg.

Hann er giftur samlöndu sinni, Emmu Löfgren, sem hann kynntist fyrir 13 árum á golfvelli í Svíþjóð. Þau eiga eina dóttur, Lisu, sem fæddist 2. júlí 2007 og er því sex ára og soninn Karl sem fæddist 2010 og er 3 ára.

Henrik Stenson ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Emmu og krökkunum Karli og Lisu

Henrik Stenson ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonunni Emmu og krökkunum Karli og Lisu

Henrik varð atvinnumaður í golfi, árið 1999 og var efstur á peningalista Challenge-túrsins í Evrópu, árið á eftir, þ.e. árið 2000. Hann spilaði á Evróputúrnum 2001 og sigraði í 6 mótum á honum. Á árunum 2005 -2008 var hann meðal 10 efstu í European Order of Merit.

Henrik Stenson var meðal 20 efstu kylfinga á heimslistanum (Official World Golf Rankings) árið 2006 og meðal 10 efstu árið 2007. Í febrúar 2007 var hann í 8. sæti listans eftir sigur sinn í Dubai Desert Classic-mótinu og var þá sá Evrópubúi sem náði hæstu hæðum á heimslistanum yfir bestu kylfinga.

Vikuna eftir sigurinn í Dubai varð Henrik Stenson fyrsti Svíinn til þess að vinna World Golf Championships en hann sigraði Geoff Ogilvy 2-1 í úrslitum WGC-Accenture Match Play Championship. Með þessum sigri varð Henrik efstur á European Order of Merit og einnig í 5. sæti á lista yfir bestu kylfinga heims, sem var mesti árangur sem Svíar hafa náð á listunum; hann fór fram úr Jesper Parnevik, sem náði 7. sætinu á heimslistanum í maí 2003.   Sjötta sætið sem hann er í eftir glæsisigur sinn á Deutsche Bank Championship 2013 er því ekki besti árangur hans á heimslistanum! Það er hins vegar 4. sætið sem hann situr nú í eftir sigurinn á Tour Championship 2013!!!

Henrik Stenson - sigurvegari á Dubai Desert Classic

Henrik Stenson – sigurvegari á Dubai Desert Classic 2007

Þessir tveir sigrar urðu til þess að Henrik var í forystu á European Tour Order of Merit, en hann gat ekki byggt við þá sigra og hafnaði í 4. sæti.

Henrik Stenson tók í fyrsta sinn þátt í Ryder Cup árið 2006 og eftir að hafa náð hálfu stigi í fjórleik gegn Stewart Cink og David Toms fekk hann heiðurinn af því að setja niður pútt og tryggja Evrópu Ryder bikarinn 3. árið í röð eftir að sigra Vaughn Taylor 4-3 í einvígi milli þeirra. Hann tók þátt í Ryder Cup 2008, í Valhalla, og sigraði og var jafn í fjórleiknum. En hvernig sem á því stóð var hann ekki eins heppinn og tveimur árum áður, en hann tapaði einvígi sínu við Kenny Perry.

Frægt er þegar kynnirinn las nafn Henriks Stenson vitlaust upp í Ryder Cup árið 2008. Fyrst var Henrik Stenson nefndur Henrik Stevenson og svo Henrik Stevens. Mistökin voru að sjálfsögðu leiðrétt.

Henrik Stenson ásamt Emmu konu sinni í Ryder Cup Gala 2008 - Var þetta Svenson eða Stevenson?

Henrik Stenson ásamt Emmu konu sinni í Ryder Cup Gala 2008 – Eða heitir hann  Stevens eða Stevenson?

Í mars 2009 olli Henrik Stenson fjölmiðlafárviðri þegar hann strippaði og var að lokum aðeins í nærbuxum og golfhanska einum fata; þegar hann þurfti að ná bolta úr leirpytti í fyrstu umferð WGC-CA Championship. Þetta tilvik leiddi m.a. til þess að Tiger Woods, sem annars er alltaf svo alvarlegur á golfvellinum gaf Henrik Stenson nýjar brækur eins og frægt varð.

Stenson strippar

Stenson strippar

Þann 10. maí 2009 vann Henrik Stenson The Players Championship, en hann lauk keppni á 66 höggum á lokahringum, 4 höggum á undan Ian Poulter. Þetta var fyrsti sigur hans í höggleik í Bandaríkjunum. Sigurinn færði hann aftur í 5. sæti heimslistans yfir bestu kylfinga. Næstu viku varð hann færður upp í 4. sæti án þess að spila.

Stenson vann vafalaust einn stærsta sigur sinn 2. september 2013 þegar hann vann Deutsche Bank Championship í FedExCup umspilinu en þar hlaut hann sigurtékka upp á 173 milljónir íslenskra króna.  Var hann vel að sigrinum kominn en hann var búinn að vera í 2. og 3. sæti í stórmótum golfsins allt árið 2013… þannig að það hlaut að koma að þessu!

En hann bætti um betur, í gær 23. september 2013 þegar hann vann langstærsta sigur sinn til þessa   í 4. og síðasta móti FedEx Cup umspilsins, Tour Championship, í East Lake, Georgíu og varð fyrir vikið $1,440,000 (aftur u.þ.b. 173 milljónir íslenskra króna) ríkari, sem hann hlaut vegna sigursins í mótinu, en auk þess fékk hann rúman 1,3 milljarða bónuspott fyrir að vera efstur á FedExCup stigalistanum, fyrstur Evrópubúa.

Henrik Stenson eftir sigurinn á Deutsche Bank Championship 2. september 2013

Henrik Stenson eftir sigurinn á Deutsche Bank Championship 2. september 2013

Alls hefur Henrik Stenson sigrað á 15 mótum, þar af í 4 skipti á PGA-mótaröðinni, 7 sinnum á Evróputúrnum, í 3 skipti á Challenge-túrnum. Besti hans í risamótunum 4 er 2. sætið á Opna breska, (2013) og eins varð hann í 3. sæti á PGA Championship í ár (2013). Síðan  varð hann jafn öðrum í 9. sæti (T-9) á Opna bandaríska. Besti árangur hans á the Masters er enn T-17 árangur árin 2007 og 2008.

Eins og er spilar Henrik Stenson bæði á PGA-mótaröðinni og á Evróputúrnum og er nú í 4. sæti listans yfir bestu kylfinga heims.

Greinin hér að ofan er að nokkru byggð á eldri grein greinarhöfundar sem birtist á iGolf 1. febrúar 2010. 
Aðalheimild: Wikipedia