Ragnheiður Jónsdóttir | september. 17. 2012 | 15:00

Hver er kylfingurinn: Gonzalo Fernández-Castaño?

Gonzalo Fernández-Castaño eða Gonzo eins og vinir hans kallaði hann stóð uppi sem sigurvegari á BMW Italian Open í gær.  En hver er þessi spænski kylfingur með skrítna nafnið?

Gonzalo Fernández-Castaño fæddist 13. október 1980 í Madríd og verður því 32 ára eftir tæpan mánuð.  Hann er kvæntur Aliciu og þau eiga þrjú börn: Gonzalo (2009); Lólu (2010) og Aliciu (2012).

Alicia smellir kossi á eiginmann sinn: Gonzalo Fernández-Castaño eftir sigurinn á BMW Italian Open, 16. september 2012.

Gonzalo gerðist atvinnumaður í golfi 2004 og varð í 8. sæti það ár í Q-school Evrópumótaraðarinnar.

Árið 2005 á nýliðaári sínu sigraði hann í KLM Open og hlaut Sir Henry Cotton nýliðaverðlaunin. Eins vann hann Madrid Federation Championship á Peugeot túrnum á Spáni það ár, þ.e. 2005 og er það eina mótið sem hann hefir unnið sem atvinnumaður utan Evrópumótaraðarinnar.

Árið 2006 vann hann á BMW Asian Open sem var samstarf milli Evrópumótaraðarinnar og Asíutúrsins.

Árið 2007 sigraði hann í 3. sinn á Evrópumótaröðinni, þ.e. Opna ítalska. Hann lauk leik á árinu meðal eftstu 60 á stigalistanum þau ár sem hann spilaði á túrnum fram að því.

Árið 2008 sigraði hann á  Quinn Insurance British Masters.

Hann varð í 2. sæti á Estoril Open de Portugal 2009 eftir að tapa í umspili gegn Michael Hoey, 2009. Hann varð í 2. sæti vikuna þar á eftir á Volvo China Open, en Scott Strange sigraði mótið. Hann varð síðan aftur í 2. sæti 3. vikuna í röð á Ballantine’s Championship, þar sem hann tapaði fyrir Thongchai Jaidee í þriggja manna bráðabana við hrikalega erfið skilyrði í Kóru. Hann lauk keppnistímabilinu í 17. sæti á Race to Dubai.

Í maí 2009 náði hann inn á topp 50 á heimslistanum í fyrsta sinn.

Í nóvember 2011 sigraði hann síðan á  Barclays Singapore Open eftir bráðabana. Hann hafði þar áður misst 6 mánuði af keppnistímabilinu vegna bakmeiðsla.

Sigurinn í gær er 7. sigur hans sem atvinnukylfings og sá 6. á Evrópumótaröðinni.