Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 20. 2018 | 08:00

Hver er kylfingurinn: Bubba Watson (2018)?

Hver er eiginlega Gerry „Bubba“ Watson? Hann sigraði um helgina (18. febrúar 2018) á Genesis Open í Pacific Palisades, í Kaliforníu og var þetta 10. PGA Tour sigur hans.

Hér fer allt nánar um Bubba….

Bubba fæddist 5. nóvember 1978, í Bagdad, Flórída og er því 39 ára. Hann er 1,91 m á hæð og 82 kg. Hann spilar á PGA túrnum og er þekktur fyrir að vera einn af örvhentu kylfingum túrsins og eins er hann þekktur fyrir einstaka högglengd sína. Hann var t.a.m. högglengsti kylfingur PGA Tour 2007 og var meðaldrævlengd hans 315.2 yardar (þ.e. 288 metrar). Boltahraði hans (ens. ball speed) nemur 194 mílum/klst. þ.e. 312 km/klst. og Bubba er einn af fáum kylfingum sem nær að slá yfir 350 yarda (320 metra). Hann hefir verið meðal 10 efstu á heimslistanum (ens.: Official World Golf Rankings).

Í Flórída, þar sem Bubba ólst upp var hann í Milton High School og spilaði með golfliði skólans ásamt Heath Slocum og Boo Weekley, sem líka eru á PGA túrnum. Hann spilaði golf fyrstu tvö ár sín í háskóla með Faulkner State Community College í Alabama þar sem hann var All-American. Íslenskir kylfingar í bandaríska háskólagolfinu sem hafa spilað / spila með Faulkner eru Hrafn Guðlaugsson GSE og Eyþór Hrafnar Ketlisson, GA.  Seinni tvö árin í háskóla spilaði Bubba golf í University of Georgia árin 2000 og 2001. Meðan hann var í Georgíu, hjálpaði hann m.a. liði sínu Bulldogs að verða meistrarar á Suð-Austurströndinni árið 2000 (þ.e. í Southeastern Conference Championship).

Bubba tapaði í umspili fyrir Martin Kaymer á PGA Championship 2010, s.s. frægt er orðið.

Atvinnumennskan í golfi
Bubba gerðist atvinnumaður í golfi 2003 og spilaði fyrst á Nationwide Tour, þar sem hann var til ársins 2005. Þá varð hann í 21. sæti á peningalista mótaraðarinnar og hlaut kortið sitt á PGA Tour fyrir keppnistímabilið 2006. Sem nýliði á PGA Tour vann hann sér inn $1,019,264 (er í 90. sæti yfir tekjuhæstu kylfinga allra tíma) og eins var hann högglengsti kylfingur PGA Tour í upphafshöggum (319.6 yardar/292 metrar). Lengsta dræv hans á PGA Tour var 416 yarda (380 metra að lengd) en það var á Sony Open 2010. Lengsta dræv hans á móti atvinumanna var 422 yardar/386 metrar á Nationwide túrnum.

Bubba spilaði vel á Opna bandaríska árið 2007. Hann var í lokahópnum á laugardaginn eftir að hafa verið á 70–71 (+1) í Oakmont Country Club. Hann var 1 höggi á eftir forystunni eftir 3. dag en kom sér úr toppbaráttunni með skor upp á 74 (+4) á 3. og 4. hring. Hann lauk keppni T-4.

Bubba Watson vann fyrsta mót sitt á PGA Tour þann 27. júní 2010 í Cromwell, Connecticut á Travelers Championship í 2 holu bráðabana þar sem hann vann Corey Pavin og Scott Verplank. Bubba tileinkaði sigur sinn, allur í tárum, foreldrum sínum, sérstaklega pabba sínum, sem var að berjast við krabbamein.

Bubba var síðan í 2. sæti á eftir Martin Kaymer á PGA Championship á Whistling Straite eftir að tapa í bráðabana þar sem Dustin Johnson átti upphaflega að taka þátt í áður en honum var dæmt 2 högga vítið s.s. frægt er orðið. Bubba leiddi bráðabanann eftir 1. holuna en 2. högg hans lenti í vatnshindrun á síðustu holu. Kaymer vann með 1 höggi á 3. og lokaholu umspilsins.

Bubba var með sína eigin fatalínu sem nefndist Bubba Golf hjá fatastórversluninni Steve&Barry´s, sem síðan er farin á hausinn.

Bubba var m.a. boðið í Ellen Degeneres show eftir að hann sendi henni myndskeið með golf galdrahöggi, sem hann bjó til fyrir afmæli hennar og eins söng hann afmælissönginn fyrir hana sem sjá má HÉR: Hehehe, Bubba er betri kylfingur en söngvari!

Þann 30. janúar 2011 vann Bubba 2. mót sitt á PGA Tour – Farmers Insurance Open, þegar hann vann Phil Mickelson með 1 höggi. Bubba vann síðan í 2. sinn árið 2011 og 3. titil sinn þegar hann bar sigurorð af Webb Simpson á 2. holu umspils í Zürich Classic of New Orleans. Á fyrstu holu umspils náðu báðir kylfingar fuglum og setti Bubba m.a. niður 4 metra pútt, sem kom honum á 2. holu umspilsins. Þar náði Bubba fugli og vann mótið, þar sem Simpson náði bara pari.

Í júlí 2011 olli Bubba deilum með því að gagnrýna Alstom Open de France þar sem hann spilaði á undanþágu; hann sagði eftir 1. hring sinn í mótinu að hann myndi ekki spila aftur á mótum Evrópumótaraðarinnar og kvartaði eftir 2. hring sinn um öryggisgæslu og skipulag mótsins.

Bubba tók þátt í Sleggjumóti (Long Drive Contest) til stuðnings góðgerðarmálum á Hyundai Tournament of Champions) ásamt Dustin Johnson og Robert Garrigus. Hann varð í 2. sæti með dræv upp á 370 yarda/339 metra. Aðeins drævJamie Sadlowski var lengra þ.e. 400 yarda/366 metra.

Bubba ásamt móður sinni eftir sigurinn á The Masters 2012

Masters mótið 2012

Þann 8. apríl 2012 á lokahring Mastersmótsins var Bubba í holli með Louis Oosthuizen og byrjaði -7 undir pari, 2 höggum á eftir forystumanninum eftir 54 holur, Svíanum Peter Hanson. Oosthuizen fékk albatross á 2. braut, þannig að hann tók við forystu af Hanson. Louis Oosthuizen og Bubba Watson voru jafnir eftir 72 holu spil og því kom til umspils. Báðir fengu par á 1. holu umspilsins, þ.e. 18. brautinni. Á næstu holu umspilsins, 10. holu slógu báðir kylfingar upphafshögg sín út í skóg til hægri við holuna. Bubba tókst að bjarga sér með galdrahöggi og setti 2. höggið sitt (galdrahöggið) innan við 4 metra frá holu. Oosthuizen hins vegar fékk skolla þannig að Bubba vann fyrsta risamót sitt á 2. holu umspilsins.

Bubba er mjög vinsæll meðal golfáhangenda og áhorfenda vestra.

2013
Watson hóf árið 2013 á því að spila í Hyundai Tournament of Champions þar sem hann varð T-4. Hann missti síðan af Farmers Insurance Open vegna flensu.. ann náði í fjórðungsúrslitin í heimsmótinu í holukeppni og spilaði strax þar á eftir í Cadillac heimsmótinu á Doral. Hann hóf mótið mjög sterkt með hringi upp á 66 og 69 en lauk því að sama skapi illa með hringjum upp á 71 og 75, en við það lenti hann í 18. sæti.

Bubba varð síðan í 14. sæti á Arnold Palmer Invitational og sneri síðan aftur á Masters risamótið til að verja titil sinn. Hann var aldrei líklegur til sigurs í risamótinu og hafnaði í 50. sæti eftir lokahring upp á 77 högg. Á Players varð hann í 37. sæti og á Opna bandaríska T-32. Vikuna þar á eftir spilaði hann í Travelers Championship þar sem hann var í forystu eftir 2. hring með skor upp á 67 högg. En á lokahringnum fékk hann þrefaldan skolla á par-3 16. holuna og var 2 höggum frá því að komast í umspil, en hafnaði í 4. sæti.

Meðal annarra markverðra móta Bubba 2013 eru The Greenbrier Classic þar sem hann varð T-30 og síðan Opna breska þar sem hann hafnaði í 32. sæti. Bubba var sigurlaus árið 2013 … og árið svona upp og niður og eiginlega ekkert sérstakt.

2014
Þann 16. febrúar 2014 sigraði Bubba á Northern Trust Open á Riviera golfvellinum í Pacific Palisades, í Kaliforníu. Þetta var 5. sigur hans á PGA Tour og sá fyrsti síðan að hann vann Masters risamótið 2012. Bubba vann síðan 2. risamótssigur sinn 13. apríl 2014 sjálft Masters risamótið! Þann 9. nóvember 2014 aðeins 4 dögum eftir 36 ára afmæli sitt vann hann 7. sigur sinn á PGA Tour þ.e. WGC-HSBC Champions í Shanghai, Kína.

Aðeins nánar um Masters sigur Bubba 2014
Bubba sigraði 2014 Masters risamótið þannig að hann átti 3 högg á næsta keppanda; heildarskor hans var 8 undir pari.  Hann hóf lokahringinn jafn 20 ára nýliðanum Jordan Spieth. Þeir spiluðu því til úrslita. Spieth náði fugli á 7. holu og var því kominn með 2 högga forystu á Bubba. En leikar snerust Spieth í óhag á par-5 8. holu Augusta National.  Spieth átti fuglapútt en endaði með að þrípútta og fékk skolla, meðan Bubba náði fugli og var allt í einu orðinn jafn Spieth. Síðan á 9. holu náði Bubba aftur fugli meðan Spieth var með skolla og þá þessi 4 högga sveifla á tveimur holum færði Bubba forystuna sem hann gaf aldrei eftir en helstu keppinautar hans voru Spieth og Jonas Blixt. Með þessum sigri varð Bubba 17. kylfingurinn í sögu Masters til þess að sigra Masters risamótið 2 sinnum eða oftar. Þessi sigur færði Bubba aftur í 4. sætið á heimslistanum.

2015

Bubba  sigraði þetta ár á Travelers Championship og náði við það 3. sætinu á heimslistanum. Annar sigur hans árið 2015 kom þegar hann vann óopinbera mótið Hero World Challenge á Bahamas, átti 3 högg á Patrick Reed. Það sem eflaust stendur upp í huga Bubba þegar hann hugsar tilbaka til ársins 2015 er að það ár gekk ættleiðing Dakotu í gegn og varð hún þar með lögformlega dóttir Bubba og konu hans Angie. Sjá um það með því að rifja upp grein Golf 1 frá 2015 með því að SMELLA HÉR: 

Þetta ár, 2015, var einnig gerð skoðanakönnun meðal félaga Bubba á PGA Tour og þeir spurðir hver væri óvinsælastur á túrnum – flestir svöruðu Bubba. Golf 1 velti á sínum tíma fyrir sér ástæðu þessa og má lesa um þær vangaveltur með því að SMELLA HÉR: 

2016

Fyrir Waste Management Phoenix Open þetta ár, snemma í febrúar olli Bubbi svolitlu fjaðrafoki þegar hann sagði að sér líkaði ekki við TPC Scottsdale völlinn (ætti ekki að koma neinum á óvart – svo viðkvæmur sem Bubba er – návígið við (oft fulla) áhangendur) er honum líklega ekki að skapi. Áhangendur gerðu honum þar af leiðandi lífið leitt allt mótið og Bubba gagnrýndi síðar fjölmiðla fyrir að snúa út úr orðum sínum.  Tveimur vikum eftir mótið sigraði hann á  Northern Trust Open á Riviera í 2. sinn á 3 árum og tókst að standast stórsókn Adam Scott og Jason Kokrak að sigursætinu og sigraði með skor upp á 15 undir pari. Þetta ár var forsetakosningaslagurinn á fullu í Bandaríkjunum og lýsti Bubba, sem er repúblíkani yfir stuðningi sínum við Trump – Sjá með því að SMELLA HÉR: 

2017

Þetta ár var slæmt fyrir Bubba að því leyti að hann sigraði ekki aá PGA Tour og náði ekki niðurskurði í 3 af 4 rismótum (eina risamótið sem honum gekk vel í var Opna breska og þar varð hann T-27, ekki slakur árangur). Tímabilið var ekki alslæmt þó sigurlaust væri – Bubba náði 5 sinnum að vera meðal efstu 10 og vann sér inn $1.3 milljón á túrnum – Ekki slæmt það myndu sumir segja.   Bubba varð t.a.m. T-7 á QBE Shootout í desember 2017, sem var besti árangur hans í 6 tilraunum.

Það sem af er 2018

Nú er aðeins 20. febrúar og Bubba búinn að vinna 10. sigur sinn á PGA Tour með sigri á Genesis Open.  Hann sigraði líka í sama móti 2014  og 2016. Þrefaldur sigur hans í þessu móti (sem áður hét the Los Angeles Open, Northern Trust Open, og Nissan Open) kemur honum í hóp nú fimma manna, sem tekist hefir að vinna mótið 3 sinnum eða oftar. Hinir eru:  Ben Hogan, Arnold Palmer, Lloyd Mangrum, og Macdonald Smith.

Alls er Bubba búinn að sigra á 10 mótum á atvinnumannsferli sínum, þar af 8 á PGA Tour eins og segir. Hinir sigrar hans komu annars vegar 2008 á CVS Caremark Charity Classic (ásamt Camilo Villegas) og síðan 2010 þ.e. Wendy’s 3-Tour Challenge (ásamt Dustin Johnson og Boo Weekley).

 

Einkalíf
Bubba Watson er kvæntur Angie, sem er 1,93 metra fyrrum körfuboltamaður. Hún var greind með stækkun í skjaldkirtli, sem skýrir óvenju mikla hæð hennar. Þann 26. mars 2012 ættleiddu Bubba og Angie 1 mánaðar lítinn strák, sem þau skírðu Caleb og eins og áður er komið fram ættuleiddu Angie og Bubba dótturina Dakotu 2015. 

Watsonfjölskyldan; Angie, Bubba, Caleb og Dakota

Pabbi Bubba, Gerry, dó 16. október 2010 úr krabbameini í hálsi.

Bubba er m.a. þekktur fyrir að vera einn af 4 af PGA Tour í boys bandinu „Golf Boys“ (hinir sem eru í hljómsveitinni með honum eru Rickie Fowler, Ben Crane og Hunter Mahan). Lag þeirra „Oh, Oh, Oh“ varð gríðarlega vinsælt en eins og margt sem Bubba tekur þátt í þá er ástæðan góðgerðarmál en fyrir hver 100.000 áhorf á myndbandið hefir Farmers Insurance skuldbundið sig til að greiða $1,000 til góðgerðarmála Farmers og Ben Crane. Sjá má hið gífurlega vinsæla og skemmtilega lag með Bubba og bandinu HÉR:

Loks mætti geta að Bubba komst í fréttirnar fyrir að spila með bleikum dræver, sem er vegna enn eins góðgerðarmálsins, sem hann styður.

Að lokum má hér sjá frétt um Bubba þegar hann varð stoltur eigandi General Lee kappakstursbílsins (Sjá grein Golf 1 þar um HÉR: )