Ragnheiður Jónsdóttir | október. 9. 2011 | 11:15

Hver er kylfingurinn Briny Baird?

Það er alltaf gaman þegar fremur óþekktum kylfingum, sem búnir eru að vera lengi að með litlum árangri tekst að skara fram úr. Svo var líklega í gær hjá Briny Baird, þegar hann landaði 1. sætinu á FrysOpen.com… daginn fyrir lokahringinn, sem spilaður verður í dag. Flestallir fréttamenn og golfaðdáendur fylgjast  fyrst og fremst með þessu veigalitla móti á PGA vegna ofurlöngunar á að sjá Tiger spila í sínu gamla formi… en það virðist eitthvað standa á því.

 

Briny Baird

Briny hins vegar er búinn að sigra með því að landa 1. sætinu (þó það sé ekki lokaniðurstaðan) en 1. sætinu náði hann… með frábærum hring upp á 64 högg þar sem litu dagsins ljós 2 skollar, 7 fuglar, 1 örn og skor upp á -7 undir pari staðreynd. Briny er samtals -13 undir pari, eftir 3 hringi, á tvö högg á þá tvo hákarla sem eru á hælunum á honum og eru margfaldir sigurvegarar PGA móta: Paul Casey og Ernie Els. Svo hlýtur að vera sætt að vera í 1. sæti í móti þar sem Tiger er í 38. sæti… og jafnframt skrýtið því Tiger fær jú mestalla athyglina.

Hver er þessi Briny?

Michael Jancey „Briny” Baird fæddist 11. maí 1972 í Miami Beach í Flórída og er því 39 ára. Hann spilaði með efstubekkingum þegar hann var í 7. bekk í Miami Country Day gagnfræðaskólanum. Á háskólaárum sínum var hann fyrst í Georgia Tech áður en hann flutti sig yfir í Valdosta State University og spilaði með golfliði skólans, sem var í 2. deild þ.e. NCAA Div II. Hann sigraði tvívegis einstaklingskeppnir 1994 og 1995. Árið 1995 gerðist Briny atvinnumaður í golfi.  Hann er því búinn að spila í hörðum heimi golfatvinnumennskunnar í 16 ár.

Briny vann Monterrey Open á Buy.com túrnum (sem nú heitir Nationwide túrinn) og er það eini sigur hans sem atvinnumanns. Hann spilar sem stendur á PGA túrnum en slæmt gengi 2005 varð til þess að hann missti kortið sitt. Besti árangur hans á peningalistanum til þessa er 27. sætið, árið 2003. Árið 2008 varð hann í 27. sæti á FedExCup og fékk þ.a.l. kortið sitt fyrir 2009 keppnistímabilið.

Jafnvel þó hann hafi aldrei unnið á PGA hefir hann nokkrum sinnum verið í 2. sæti, síðast árið 2009 á Verizon Heritage mótinu.

Briny er sonur atvinnukylfingsins Butch Baird. Briny er þekktur fyrir skrítinn púttstíl sinn, sem hefir bara verið að virka fyrir hann.

Loks er skemmtileg saga af Briny þegar hann sló 230 yarda/210 metra golfhögg af þaki Omni San Diego Hotel beint í miðju „skotskífunnar” (ens.: Bullseye) á Petco Park íþróttaleikvanginum og þar með varð P.F. Chang´s China Bistro að splæsa fría kjúklingavefju á alla þann dag, en veitingastaðurinn hafði heitið því ef einhver hitti í miðju skífunnar.  Fjölmiðlar vestra hafa því oft uppnefnt Briny, konung fríu kjúklingavefjunnar. Chang hins vegar styrkir Briny og er Briny oft með stráhatt með nafni Chang í golfmótum og hefir m.a. vegna þessa oft verið meðal kandídata á verst klæddu kylfings listum.

Árið 2010 var Briny í 125. sæti á peningalista PGA fyrir síðasta mótið, sem honum gekk illa í og hann varð í 127. sætinu, þ.e. tveimur sætum frá því að hljóta fullan þátttökurétt á PGA.

Ef Briny sigraði í dag væri það ekki aðeins uppskera 16 ára erfiðisvinnu, heldur líka trygging á áframhaldandi veru Briny á PGA.

Heimild: Wikipedia (að hluta)