Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2012 | 21:00

Hver er kylfingurinn: Ben Hogan? (9/9) 14. grein af 24 um „The Match“

Hér verður fram haldið kynningu á einni af 4 aðalsöguhetjum í bók Mark Frost: “The Match – The day the game of golf changed forever.” Ben Hogan var annar af 2 atvinnumönnunum (hinn var Byron Nelson) sem kepptu við tvo áhugamenn í fjórleik (þ.e. Ken Venturi og Harvie Ward sem þegar hafa verið kynntir til sögunnar) vegna veðmáls milljónamæringanna Eddie Lowery og George Coleman, árið 1956, en Eddie taldi að enginn gæti sigrað tvo starfsmenn sína, áhugamennina Venturi og Ward í fjórleik. Coleman tók veðmálinu og mætti með þá Ben Hogan og Byron Nelson, sem er líkt og hann hefði mætt með Rory McIlroy og Luke Donald til að keppa við einhverja áhugamenn í dag.

Kynningin á Ben Hogan hefir verið nokkuð löng (í 9 hlutum) en hér er komið að lokahlutanum í kynningunni á honum.  Lokið verður á þessu í raun stutta yfirliti yfir yfirgripsmikinn feril Hogan, með því að geta fyrirtækis hans en margir eldri kylfingar kannast vel við Hogan kylfurnar:

Eftir árangursríkasta hluta ferils síns stofnaði Hogan golfkylfuframleiðslufyrirtæki sitt, þ.e. að hausti til 1953 í Forth Worth, Texas. Framleiðslan hófst sumarið 1954, með kylfum sem ætlaðar voru „betri kylfingum.“ Hogan var alltaf sami fullkomnunarsinninn og er sagður hafa fyrirskipað að öll fyrsta framleiðslulínan skyldi eyðilögð vegna þess að hún  stóðst ekki kröfur hans.

Árið 1960 seldi Hogan fyrirtæki sinn American Machine and Foundry (AMF), en var enn formaður í stjórn fyrirtækisins í mörg ár. AMF Ben Hogan golfkylfur voru seldar á árunum 1960 til 1985, en þá var fyrirtækið keypt af Minstar sem seldi The Ben Hogan company síðan árið 1988 til Cosmo World, sem átti vörumerkið til ársins 1992, þegar það var selt til einstaklingsins, Bill Goodwin.

Goodwin flutti fyrirtækið frá  Fort Worth til Virginíu þannig að framleiðslan væri nær öðrum AMF vörum. Goodwin seldi fyrirtækið til Spalding árið 1997. Spalding flutti framleiðsluna aftur til Fort Worth, Texas en varð gjaldþrota og þá eignaðist Callaway fyrirtækið 2004. Callaway á nú einkarétt á Ben Hogan vörumerkinu. Callaway hætti að framleiða Ben Hogan línuna, 2008.

Hér má sjá ofangreint einfaldað:
1953 – fyrirtækið stofnað
1960 – selt AMF, Hogan var áfram formaður stjórnar og forseti fyrirtækisins
1984 – selt til Irwin Jacobs fyrir  $15 milljónir.
1988 – selt til  Cosmo World í Japan fyrir $55 milljónir, upprunalegur styrktaraðili the Ben Hogan Tour á árunum 1990–92
1992 – selt til Bill Goodwin í Richmond, Virginia
1997 – selt til Spalding Top-Flite
2003 – selt til  Callaway Golf. Hætt að framleiða Hogan línuna árið 2008.