Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 17. 2016 | 14:00

Hver er kylfingurinn: Adam Scott (5/5)

Hér fer síðasta af 5 greinum til kynningar á Scott og er nú farið yfir feril hans til dagsins í dag, 17. mars 2016:

Árið 2011 í ferli Adam Scott
Scott náði besta árangri sínum í risamóti fram til þess tíma þegar hann varð jafn öðrum í 2. sæti á the Masters 2011 saman með landa sínum Jason Day, en þeir báðir voru 2 höggum á eftir sigurvegaranum Charl Schwartzel. Scott var einn í forystu á 71. holu, en 4 fuglar í röð frá Schwartzel urðu til þess að Scott tapaði með 2 höggum.

Adam Scott sigurvegari WGC-Bridgestone Invitational 2011

Adam Scott sigurvegari WGC-Bridgestone Invitational 2011

Sigur á WGC-Bridgestone Invitational
Þar sem Tiger Woods var meiddur á Opna bandaríska og Opna breska 2011 fékk Scott, kylfubera Woods, Steve Williams lánaðan. Eftir að Woods sagði Williams upp 20. júlí 2011 varð Williams fastráðinn hjá Scott. Þeir tveir fögnuðu fyrsta sigri sínum saman 7. ágúst 2011 þegar Scott sigraði á WGC-Bridgestone Invitational, en þetta var fyrsti sigur hans á heimsmóti og 8. sigur Scott á stærstu mótaröðunum. Hann vann Luke Donald og Rickie Fowler með 4 höggum og skollalausum lokahring upp á 65 högg og var 20. kylfingurinn til að sigra á heimsmóti. Scott komst aftur meðal efstu 10 á heimslistanum í fyrsta sinn eftir 2 ára fjarveru, var í 9. sæti.

Scott reyndi að verða fyrsti kylfingurinn frá því að Tiger tókst það 2007 til þess að sigra á risamóti vikuna eftir að hafa sigrað á PGA móti, en Scott varð hins vegar í 7. sæti á PGA Championship. Scott var einn af 6 kylfingum til þess að vera tvívegis meðal efstu 10 á risamóti árið 2011. Adam Scott leiddi síðan í hálfleik á Tour Championship, en átti síðan hring vonbrigða upp á 74 en lauk mótinu á 68 og deildi ásamt öðrum 6. sætinu. Scott lauk árinu í 16. sæti á peningalistanum. Í nóvember 2011 var Adam einn af 5 Áströlum í Forsetabikarsliðinu sem tapaði fyrir liði Bandaríkjamanna í Ástralíu. Árangur Scott í mótinu var 2-3-0.

Árið 2012 í ferli Adam Scott
Scott hóf keppnistímabilið síðar en hann var vanur, spilaði ekki fyrr en 19. febrúar á the Northern Trust Open, þar sem hann varð T-17. Scott varð 2. árið í röð meðal 10 efstu á the Masters, en 2012 varð hann T-8. Scott átti lokahring upp á 66 högg, þ.á.m fór hann holu í höggi á Redbud, par-3, 16. holunni á Augusta National. Á 2. risamóti ársins átti Scott besta árangur sinn á Opna bandaríska varð T-15 í Olympic Club. Hann átti 3 hringi upp á 70 högg. Síðan varð hann í 3. sæti á AT&T National.

Adam Scott vonsvikinn eftir frammistöðu sína á síðustu 4 holunum á Royal Lytham & St. Anne´s

Adam Scott vonsvikinn eftir frammistöðu sína á síðustu 4 holunum á Royal Lytham & St. Anne´s

Opna breska risamótið 2012
Adam Scott hóf Opna breska 2012 með því að jafna vallarmetið á Royal Lytham & St. Annes golfklúbbnum þegar hann átti hring upp á 6 undir pari, 64 höggum. Hann leiddi eftir 1. hring með 1 höggi. Á 2. hring jafnaði Bandaríkjamaðurinn Brandt Snedeker afrek Scott og átti högg á hann þegar mótið var hálfnað. Scott spilaði 2. hring hins vegar á 67 höggum; fékk 4 fugla og 1 skolla. Á þriðja hringnum var Scott á 68 höggum og var með 4 högga forystu fyrir lokahringinn en næstir á eftir komu Brandt Snedeker og Graeme McDowell. Þetta var í fyrsta sinn sem Scott var í lokahollinu í risamóti. Á fyrstu 3 hringjum hafði Scott fengið fugl á allar par-5 holur, sem hann spilaði.

Á lokahringum var Scott með skolla á 1. og 3. holu en tók það aðeins tilbaka með fugli á 2. holu en þarna á 3. hafði forskotið sem hann átti á Snedeker minnkað í 3 högg. Afganginn af holunum á fyrri 9 spilaði Scott á pari, nema á 6. braut þar sem Scott tapaði öðru höggi. Parið sem hann fékk á 7. braut batt endi á fuglaseríuna sem hann var fram að því búinn að fá á öllum par-5 holum. Þegar Scott hóf leik á seinni 9 var hann enn með 4 högga forystu á næstu menn. Hann byrjaði leik sinn á seinni 9 með 4 pörum áður en hann fékk fugl á 14. braut og átti þá bara eftir að spila 4 brautir.

Eftirleikurinn er öllum golfunnendum kunnur – það ótrúlega gerðist Scott fékk skolla á allar síðustu 4 holurnar og tapaði fyrir Ernie Els. Á síðustu, þ.e. 18. holunni hefði fugl nægt til sigurs og par til að knýja fram bráðabana gegn Els… en svo fór sem fór Adam Scott tapaði og allur golfheimurinn fann til með honum.

Eftir lokahringinn sagði Adam Scott: „Ég er mjög vonsvikinn, en ég spilaði svo vel mestalla vikuna að ég get virkilega ekki látið þetta draga úr mér. Ég veit að ég hef látið frábært tækifæri ganga mér úr greipum í dag, en einhvern veginn mun ég líta aftur og taka allt það jákvæða með mér úr þessu.“ Þrátt fyrir dapurlegan endi jafnaði Scott besta árangur sinn á risamóti og komst aftur á topp 10 á heimslistans, þ.e. í 6. sætið.

Afgangurinn af keppnistímabilinu 2012
Fyrsta mótið sem Adam Scott tók þátt í eftir Opna breska 2012 var WGC-Bridgestone Invitational, þar sem hann reyndi að verja titil sinn frá fyrra árinu. Hann lauk keppni í 45. sæti. Næstu vikuna var Scott aftur meðal fremstu keppenda á PGA Championship og var meðal líklegustu sigurvegara lokahringinn, 4 höggum á eftir þeim sem leiddi Rory McIlroy. Þó allar aðstæður til golfleiks væru frábærar var Scott á 73 höggum og lauk keppni T-11. Þann 18. nóvember átti Scott skollafrían hring á Kingston Heath golfvellinum í Melbourne og sigraði Talisker Masters í fyrsta sinn á ferlinum. Hann var 2 höggum á eftir Ian Poulter fyrir lokahringinn, en átti glæsilokahring upp á 67 högg, þ.m.t. var hann með fugl á síðustu holu og skrýddist „Gyllta jakkanum“ sem veittur er á ástralska Masters.

Adam Scott - sigur á the Masters 2013

Adam Scott – sigur á the Masters 2013

Ferill Adam Scott 2013
Scott hóf keppnistímabilið seinna en flestir kylfingar og spilaði í fyrsta móti sínu á the Northern Trust Open, í febrúar 2013. Hann varð T-10 og átti 2 hringi undir pari. Hann tók síðan þátt í heimsmótunum; tapaði í heimsmótinu í holukeppni strax í 1. umferð gegn Tim Clark frá Suður-Afríku 2&1. Á Cadillac heimsmótinu í Doral varð Scott hins vegar T-3 á eftir Tiger og Steve Stricker. Síðasta mót hans fyrir the Masters var Tampa Bay Championship, þar sem hann varð T-30.

The Masters risamótið 2013
Á the Masters risamótinu 2013 var Scott meðal efstu manna og vann sig upp í forystu eftir 72 holur. Hann náði fugli á 18. holuna, sem þýddi að hann var efstur í mótinu og aðeins lokahollið á eftir honum. Um spennufall var að ræða hjá honum og hann gladdist ógurlega, þar sem allt leit út fyrir að hann hefði sigrað…. hins vegar borgar sig aldrei að fagna of snemma. Ángel Cabrera átti glæsilegt aðhögg og fékk fugl á lokaholuna líka þannig að allt var aftur jafnt milli hans og Scott – báðir á samtals 9 undir pari og fram varð að fara bráðabani milli þeirra.

Báðir náðu þeir Scott og Cabrera pari á fyrstu holu bráðabanans og Cabrera var aðeins sentimetrum frá fugli. Á 2. holu bráðabanans missti Cabrera fuglapútt sitt og Scott átti eftir 4 metra fuglapútt fyrir titilinum sem hann setti niður. Þetta var fyrsti risamótssigur Scott og var í fyrsta sinn sem Ástrali sigraði á the Masters risamótinu. Margir litu svo á að hér væri um bætur honum til handa að ræða fyrir óheppnina á Opna breska sumarið áður. Með sigrinum komst Adam Scott í 3. sæti heimslistans og jafnaði þar með besta árangur sinn á listanum til þessa.

Ferill Scott 2014  – Var að eltast við að verða nr. 1 á heimslistanum …. og Scott varð nr. 1!!!

Í mars 2014, jafnaði Scott vallarmetið á Bay Hill Club & Lodge, þegar hann var á 10 undir pari, 62 höggum á 1. hring Arnold Palmer Invitational. Hann lauk keppni í 3. sæti í mótinu á eftir sigurvegaranum  Matt Every og Keegan Bradley eftir slælegan lokahring upp á 4 yfir pari, 76 högg.

Þann 19. maí 2014 varð Scott nr. 1 á heimslistanum. Scott er 17. kylfingurinn sem nær 1. sætinu frá því að opinberlega var farið að halda utan um þá tölfræði. Hann er líka 2. Ástralinn og sá fyrsti frá Greg Norman árið 1998 til að ná því sæti. Viku eftir að hann varð nr. 1 styrkti Scott enn stöðu sína með sigri á Crowne Plaza Invitational á Colonial og varð þar með fyrsti kylfingurinn til þess að sigra öll mót í Texas á PGA Tour. Scott var nr. 1 á heimslistanum í 11 vikur, þar til í ágúst 2014.

Ferill Scott 2015

Árið 2015 spilaði Scott í 15 mótum á PGA Tour og vann sér inn $1,382,365. Þetta var ekkert sérstakt ár sem sést á því að á fyrstu 3 mánuðum 2016 er hann búinn að vinna sér inn meira enn þrefalt hærri uppihæð!  Hann varð aðeins þrívegis meðal efstu 10.

Adam Scott sigurvegari á WGC Cadillac Championship 2016

Adam Scott sigurvegari á WGC Cadillac Championship 2016

Ferill Scott 2016

Það sem af er árs 2016 (ritað 17. mars 2016) er búið að vera ævintýri líkast hjá Adam Scott.  Hann byrjaði árið á því að verða í 2. sæti á the CIMB Classic. Hann fylgdi þessum góða árangri eftir í febrúar 2016 með því að verða enn í 2. sæti á  Northern Trust Open, en þar varð hann 1 höggi á eftir sigurvegaranum Bubba Watson þrátt fyrir að hafa chippað beint ofan í lokaholuna fyrir fugli!

Þann 28. febrúar 2016 vann Scott 12. PGA Tour tiitl sinn með sigri á The Honda Classic en leikið var á PGA National Golf Club. Hann átti 1 högg á  Sergio García og batt þar með enda á sigurleysi fyrri 2 ára. Þetta var líka fyrsti sigur Scott með stuttan pútter, eftir að bannið á löngu pútterunum gekk í gildi 2016. Það sem var einnig sérstakt við sigur Scott var að hann varð fyrsti leikmaðurinn til að sigra í lengri tíma þrátt fyrir að hafa fengið fjórfaldan skolla, en það hafði ekki gerst frá því að Phil Mickelson vann Tour Championship 2009. Með sigrinum komst Scott á topp-10 sætið á heimslistanum; þ.e. í 9. sætið.

Svo þann 6. mars 2016 sigraði Scott á WGC Cadillac Championship.

Þátttaka Scott í liðakeppnum

Adam Scott hefir verið fulltrúi Ástrala í heimsbikarskeppninni 2002 og var hluti af alþjóðaliðinu í Forsetabikarnum árin 2003, 2005, 2007, 2009 og 2011. Hann á enn eftir að vera í sigurliði.

Adam Scott og kærestan Marie Kojzar

Adam Scott og kærestan Marie Kojzar

Einkalíf Adam Scott

Adam Scott hefir verið með mörgum þekktum konum. Ein sú þekktasta er tennisdrottningin Ana Ivanovic. Eftir Masters risamótið sagði Scott að hann væri á föstu með konu að nafni Marie. Golffréttamenn voru fljótir að grafa upp að hér ætti hann við Marie Kojzar, 35 ára sænskan arkítekt. Þau  giftust í apríl 2014 og eiga saman dótturina Bo Vera Scott, sem fæddist í Pindara einkaspítalanum í Queensland, Ástralíu í febrúar 2015.