Inga Magnúsdóttir
Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 21. 2014 | 23:00

Hvað er heitt og hvað afleitt?

Nú í sumar hefir verið í gangi  greinarflokkur hér á  Golf 1 sem ber heitið „Hvað er heitt og hvað afleitt?“, sem er í raun bein þýðing og stæling á sambærilegum greinaflokki hjá CBSsports.com, sem heitir þar „What´s hot and what not … on the PGA tour.“  Greinarflokkurinn verður í gangi allt þar til síðustu leikir á Íslandsbankaröðinni hafa verið leiknir fyrstu vikuna í september og hefur síðan aftur göngu sína á næsta sumri 2015, þegar mótaraðir okkar bestu hefja göngu sína, enda greinarröðinni ótrúlega vel tekið.

Á CBS er alltaf getið um 5 atriði (kylfinga, atburði, eitthvað innan golfheimsins), sem þykja hafa skarað fram úr í vikunni áður en greinin birtist og er þ.a.l. heitt og að sama skapi eitthvað sem var afleitt í vikunni þar á undan.

Í hinum íslenska greinaflokki er ekkert loforð gefið um fjölda þess sem er heitt eða afleitt að öðru leyti en því að alltaf er a.m.k. nefnt 1 atriði af hvoru og í mesta lagi 5 eins og á CBS.   Haldið er sömu röð og hjá CBS – það sem er nr. 1 er heitast og síðan volgnar niður listann.  Alveg eins með það sem er afleitt – það sem er frámunalega afleitt er í 1. sæti og síðan skánar eftir því sem fer niður listann.

Heitt/afleitt grein  birtist alltaft á mánudögum nú í sumar.

Hér fer áttundi alíslenski „Hot“ listinn fyrir vikuhlutann 15. júlí.-21. júlí (Listinn gildir til mánudagsins 28. júlí):

1. -3. sæti Heit þessa vikuna eru nýkrýndir Íslandsmeistarar í höggleik unglinga á 4. móti Íslandsbankamótaraðarinnar ; Gísli Sveinbergsson, GK; Helga Kristín Einarsdóttir, NK; Fannar Ingi Steingrímsson, GHG; Saga Traustadóttir, GR; Ingi Rúnar Birgisson, GKG og Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA.   Dreifingin á klúbbana er einstök;  ekkert okkar nýju Íslandsmeistara er úr sama golfklúbbnum!  Öll eru þau heitust og best!

1.-3. Sigurvegarar á 4. móti Áskorendamótaraðarinnar.  Að öðrum ólöstuðum verður hér sérstaklega getið Sigrúnar Lindu Baldursdóttur í GKJ en hún var að vinna 3. sigur sinn í sínum aldursflokki 14 ára og yngri stelpna á Áskorendamótaröðinni nú um helgina og Kristófers Tjörva Einarssonar, GV ,sem vann í 2. sinn í sínum aldursflokk 14 ára og yngri og var þar að auki líka í 2. sinn á besta skori af öllum þátttakendum.  Glæsileg!

1.-3. sæti  Ragnhildur Sigurðardóttir, GR og Tryggvi Valtýr Traustason, GSE nýkrýndir Íslandsmeistarar 35+ og nýkrýndir Íslandsmeistarar eldri kylfinga: Sigurður H Hafsteinsson, GR Íslandsmeistari karla 55+ í höggleik með og án forgjafar;  Haukur Örn Björnsson, GR Íslandsmeistari karla 70+ í höggleik án forgjafar; Hans Jakob Kristinsson, GR Íslandsmeistari karla 70+ í höggleik með forgjöf; Ásgerður Sverrisdóttir, GR Íslandsmeistari kvenna 50+  í höggleik án forgjafar;  Ágústa Dúa Jónsdóttir, NK Íslandsmeistari kvenna 50+ í höggleik með forgjöf og síðast en ekki síst Inga Magnúsdóttir, GK tvöfaldur Íslandsmeistari kvenna 70+, í höggleik með og án forgjafar, en henni er hér auk þess óskað innilega til hamingju í dag með soninn Magnús Birgisson! Allt eru framangreindir kylfingar einhverjir okkar bestu og heitustu!

4. Ingvar Andri Magnússon, GR og Birkir Orri Viðarsson, GS fyrir að geta rétt og það 100% rétt í 4 spurningum sem lagðar voru fyrir 12 afrekskylfinga í unglingaflokkum en m.a. var spurt um hver myndi vinna Opna breska og hver af bandarísku kylfingunum myndi standa sig best.  Ingvar Andri og Birkir Orri spáðu báðir rétt að Rory McIlroy myndi standa uppi sem sigurvegari og að Rickie Fowler myndi verða bestur Bandaríkjamanna í risamótinu. 

5. Klúbbmeistarar og meistaramótsþátttakendur um allt land. Heitir!!!  Þótt meistaramótum stóru klúbbana á höfuðborgarsvæðinu sé lokið þýðir það ekki að meistaramótum á landsvísu sé lokið. 3 klúbbar héldu meistaramót sín nú um helgina, GOB, GÚ og GÖ og 6 klúbbar eiga eftir að ljúka meistaramótum sínum, en það síðasta er áætlað að fari fram 22. ágúst n.k.

 Það sem er afleitt er eftirfarandi: (Listinn tekur til vikuhlutans  15.-21. júlí)

1, Veðrið – hefir, það sem af er sumars, í einu orði verið: Afleitt!!!  Sérstaklega gerði það fjölmörgum keppendum á Íslandsmótunum, úti í Eyjum (þoka) og í Reykjavík, að Hellu og Hellishólum (rigning og rok)  skráveifu.  Svo er sagt að spákona nokkur hafi spáð að sumarið komi nákvæmlega 5. ágúst kl. 16:00. Skyldi eitthvað vera til í því?

2. Allt hernaðarbrölt úti í heimi.( – reyndar er þetta algilt og ofangreind tímamörk taka ekki til þess heldur er allt hernaðarbrölt afleitt alltaf, en e.t.v. sérstaklega í síðustu viku m.t.t. síðustu viku þegar sést hvernig púðurtunnan í Ísrael getur sprungið við morð á 3 einstaklingum) Það hefir haft í för með sér heilt stríð og  500 fallnir í stríði Ísrael við Hamas bara núna í s.l. viku og talið að sexfalt fleiri séu særðir.  Og svo er verið að skjóta niður farþegavélar.  Er ekki allt í lagi þarna í Úkraínu? Greinilega ekki! Af hverju getur fólk ekki bara slakað á? Í stað þess að drepa og skjóta hvert annað;  slá í hvíta litla golfkúlu á grænum engjum, í faðmi fjölskyldu og vina… eins og við hér á Íslandi.  Það er hreint og beint afleitt að allir skuli ekki hafa það jafngott og við hér á litlu golfeyjunni okkar …. jafnvel þó veðrið sé afleitt hér stundum.

3. Vantaði þátttakendur í telpna- og stúlknaflokk á 4. mót Áskorendamótaraðarinnar.  Koma svo telpur/stúlkur, það er ótrúlega gaman á Áskorendamótaröðinni!