Ragnheiður Jónsdóttir | október. 6. 2018 | 08:00

Hulda Clara og Ingvar Andri eru mætt til Buenos Aires – Taka þátt í ÓL ungmenna

Hulda Clara Gestsdóttir og Ingvar Andri Magnússon, bæði úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, eru fulltrúar Íslands á Ólympíuleikum ungmenna sem fram fara í Buenos Aires í Argentínu.

Keppnishópurinn mætti 3 dögum fyrir keppni til Buenos Aires til þess að undirbúa sig fyrir stórmótið. Hópurinn flaug til Amsterdam frá Íslandi og þaðan til Buenos Aires.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskir kylfingar keppa á golfmóti sem tengist Ólympíuleikunum – og er þetta því sögulegur viðburður í íslenskri golfsögu. Jussi Pitkänen, afreksstjóri GSÍ, er með í för en alls eru níu keppendur frá Íslandi.

Keppnigreinarnar eru alls 32 og er Ísland með keppendur í fimleikum, frjálsíþróttum, golfi og sundi.

Alls eru keppnisdagarnir sex hjá íslensku kylfingunu og er keppt í einstaklings og liðakeppni. Setningarathöfn ÓL ungmenna hefst á morgun þann 6. október 2018.

Keppni í golfi hefst 9. október. Keppt er í einstaklingskeppni 9., 10. og 11. okt hjá báðum kynjum. Þann 13. okt hefst liðakeppnin og er leikinn fjórmenningur þann 13., fjórbolti þann 14. og sameiginlegt skor í höggleik telur á lokahringnum þann 15. okt.

Texti og mynd: GSÍ