Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 28. 2012 | 10:30

Hringur á fingri Caroline Wozniacki veldur vangaveltum hvort hún og Rory séu trúlofuð

Þekktasta íþróttapar ársins 2012 lenti á Brisbane flugvelli í Ástralíu í gær, en þangað er kæresta nr. 1, Caroline Wozniacki mætt ásamt sjálfum nr. 1, Rory McIlory, til þess að venjast aðstæðum fyrir Brisbane International og Australian Open tennismótin, sem hefjast í næsta mánuði.

Það sem vakti athygli blaðamanna, sem sátu um skötuhjúin var stærðarinnar demants-safír-hringur á hendi Caroline, sem þegar hefir valdið vangaveltum um hvort þau draumadúllurnar hafi trúlofast yfir hátíðarnar.

Caroline Wozniacki með demants-safír hringshlunkinn sinn

Trúlofunarhringur eða bara flott jólagjöf?

Í síðasta mánuði neitaði Caroline að Rory hefði beðið hennar en það gæti s.s. hafa breyst nú yfir aðaldaga jólahátíðarinnar.

Caroline svaraði spurningum blaðamanna stuttlega og Rory neitaði alfarið viðtali við þá.

Caroline sást síðan með hringinn í upphitun í the Queensland Tennis Centre.  Við æfinguna sjálfa var hún hins vegar búin að setja hringinn með stóra bláa demants-umsveipaða safírhlunknum í geymslu.

Caro Wozniacki neitaði kurteisislega að tjá sig um sambandið við Rory, sagði að hún ræddi aldrei einkamál þegar hún þyrfti að einbeita sér að íþróttaviðburðum.  „Hann lætur mig algerlega í friði til þess að ég geti fengist við verkefni mín,“ sagði hún m.a.

Hvað sem öðru líður gæti Caroline bara verið að grínast í alþjóða íþróttapressunni – hún er þekkt fyrir góða kímnigáfu.  Fyrr í mánuðnum tróð hún t.a.m. inn á sig aukaklæðnaði til að virka feitari og stældi síðan Serenu Williams og á Australian Open 2011 bjó hún til sögu, sem allir fréttamenn gleyptu við, um að hún hefði orðið fyrir árás kengúru!

Kannski hringurinn sé eftir allt saman bara jólagjöfin fína, sem Rory lofaði henni eftir sigur sinn á lokamóti Evrópumótaraðarinnar í Dubai …. a.m.k. eru allar fréttir um trúlofun Rory og Caro stórlega ýktar, þar til formleg yfirlýsing frá þeim hefir verið gefin út !!!