Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2013 | 10:00

Hörður Þorsteinsson: „Vantar stefnumörkun sveitarfélaga varðandi golfíþróttina“ (2/3)

Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ hélt frábæran fyrirlestur á málþingi sem GSÍ stóð fyrir föstudaginn 22. nóvember 2013.  Hann bar yfirskriftina: „Golfvellir í hvert sveitarfélag.“

Hér fer 2. hluti fyrirlestrar Harðar:

„En þá er spurningin hvernig byggjum við upp golfklúbbana? Hver á að byggja golfvelli á Íslandi?

Á glæru fyrir aftan Hörð:

„Er markvisst unnið eftir íþróttastefnu í stuðningi við íþróttahreyfinguna og uppbyggingu mannvirkja?

Þá vil ég spyrja: Er unnið eftir einhverri íþróttastefnu í stuðningi við hreyfinguna og uppbyggingu mannvirkja?

Hvernig á uppbyggingin sér stað á Íslandi og hvernig er þróunin á því?

Þá er hér íþróttastefna ríkisins og hún er mjög athyglisverð.

Á glæru fyrir aftan Hörð:

Íþróttastefna ríkisins

Markmið

* Umhverfi og skipulag íþróttastarfs í landinu verði bætt og því skipaður verðugur sess í íslensku þjóðlífi.

* Almenningsíþróttir verði efldar og landsmenn taki aukinn þátt í íþróttum og almennri hreyfingu, íþróttaiðkun barna og unglinga í skóla og frjálsu félagastarfi íþróttahreyfingarinnar verði efld.

* Keppnis- og afreksíþróttir verði efldar. 

* Að sem flestir hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubætar eða með afreksárangur í huga. 

Í íþróttastefnu ríkisins – Þar er stefnumótun í íþróttauppbyggingu. Það sem menn vilja efla eru almenningsíþróttir sem golfíþróttin er og menn vilja efla keppnis- og afreksíþróttir. Það er hið besta mál. En þessi málaflokkur er ekki hjá ríkinu. Ég setti nú bara þetta hér til gamans til þess að sýna hver framlög ríkisins til íþrótta- tómstunda og menningarmála eru (Hörður setur upp glæru). Þessi málaflokkur er ekki hjá ríkinu þ.e. uppbygging og stuðningur við íþróttahreyfinguna hún liggur hjá sveitarfélögunum.

Á glæru á bakvið Hörð:

Almenningsíþróttir 

(Úr stefnumótun Mennta- og menningarmálaráðuneytis)

Íþróttaiðkun almennings er einn af lykilþáttum sem geta haft áhrif á lífstíl fólks í átt að heilbrigðara líferni. Mikilvægt er því að tryggja góða aðstöðu til íþróttaiðkunar almennings og ekki síður að tryggja að gott framboð sé af fjölbreyttri hreyfingu, sem hægt er að leggja stund á fyrir alla aldurshópa. Samvinnu margra aðila þarf til þess að efla jákvætt viðhorf til heilsutengdrar þjálfunar.

Leiðir: Sveitar- og íþróttafélög auki aðgengi almennings að íþróttamannvirkjum og fjölgi tilboðum um íþróttir, hreyfingu og útivist.

Aðgengi almennings að íþróttamannvirkjum verði aukið og tilboðum um íþróttir, hreyfingu og útivist fjölgað.

Stutt verði við almenningsíþróttaverkefni sem stuðla að heilbrigði þjóðarinnar. 

Þannig að þó svo að það séu háleit markmið í mennta- og menningarmálum í landi þá er ekkert fé veitt þaðan til uppbyggingarinnar. Og það er vísað til þess í lögum að sveitarfélög eigi að sjá um það og í íþróttalögum nr. 64/1998 þar segir: að bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota sé í verkahring sveitarfélaga nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Þannig að það er skýrt í lögum og stefnumörkun hjá ríkinu að þessi málaflokkur er hjá sveitarfélögunum. Og þarna sjáið þið skiptinguna á fjárframlögum til íþrótta- og æskulýðsmála (setur á nýja glæru).

En ef við eigum að skoða sveitarfélögin – hver er íþróttastefna sveitarfélaganna – þetta er af heimasíðu sambands íslenskra sveitarfélaga (setur á nýja glæru):

Ekki minnst á íþróttir, íþróttamannvirki, þó svo verkefnið sé á ábyrgð sveitarfélaga skv. stefnumótun ríkisins um íþróttamál.  

Þarna vantar stefnumörkun. Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga sagði að þetta væri auðvitað brýnt mál fyrir sveitarfélögin að marka stefnu um uppbyggingu. Og náttúrlega eftir hrun þá eru ekki miklir fjármunir til ráðstöfunar eða til fjárfestinga þannig að þetta er ansi mikið og flókið mál. Nú, við erum með íþróttastefnu hjá ÍSÍ (sett ný glæra upp)

Íþróttastefna íþróttahreyfingarinnar

– Afreksstefna GSÍ lögð fram á golfþingi 2011

– Ítarleg stefna lögð fram á golfþingi nóvember  2013

* Lögð áhersla á mikilvægi almenningsíþrótta

* Lögð áhersla á umhverfismál

* Uppbyggingu í sátt við samfélagið 

* Lífsgæði „Golf er íþrótt sem sameinar útivist, heilbrigði, félagsskap og fjölskylduna. Golfíþróttir er heilsubætandi og hefir jákvæð samfélagsáhrif.“ 

Við leggjum hér á golfþingi á morgun fram ítarlega stefnumörkun fyrir golfsambandið, þar sem er lögð áhersla á mikilvægi almenningsíþrótta; leggjum áherslu á umhverfismál og að golfvellir séu í sátt við samfélagið. Við bendum á að golf séu lífsgæði og með þessa stefnu getum við farið og hugmyndin hjá okkur í golfhreyfingunni er að klúbbarnir geti nýtt þessa stefnu til samninga við sveitarfélögin og aðstoðað sveitarfélögin að byggja upp sína íþróttastefnu.

Ný glæra sett á:

Íþróttastefna golfklúbbana

* Ljóst að ekki er unnið eftir íþróttastefnu í öllum klúbbum.

* Engin formleg stefna til í sveitarfélaginu.

* Vinnum okkar stefnu, hvernig við viljum sjá hlutinn þróast.

* Bjóðum fram aðstoð og höfum áhrif á stefnu sveitarfélaganna. 

* Uppbygging íþróttamannvirkja er hlutverk sveitarfélaganna skv. lögum. 

Ég hvet klúbbana til þess að mynda sér stefnu og vinna að markvissri stefnu, menn vilja sjá framhald í sínu sveitarfélagi og vera tilbúnir í samtalið um uppbygginguna, þannig að menn viti hvert þeir eru að fara, hver er tilgangurinn, í hvaða hópum menn eru að vinna o.s.frv.

En ef við horfum inná við hvað er til ráða?

Þetta var svona um sveitarfélögin. Við á samráðsfundum sjáum að þau koma mjög misjafnlega til stuðnings við klúbbana og við höfum verið beðnir um að ná þessu samtali við sveitarfélögin hvernig við eigum að standa að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Segið það að golfvöllur sé íþróttamannvirki, það er ekki bara sundlaug eða íþróttahús – golfvöllur er hefðbundið íþróttamannvirki og við þurfum að hjálpast að, að selja þá hugmynd. Og það held ég að við gerum með ítarlegri stefnumótun, og leggjum fram og höfum markmið og stefnu til þess að fara til sveitarstjórnarmanna með.