Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 26. 2012 | 16:00

Eimskipsmótaröðin (3): Hlynur Geir Hjartarson varð í 2. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni og útskrifaðist sem golfkennari úr Golfkennarskóla PGA – Viðtal

Helgin hjá Hlyni Geir Hjartarsyni, framkvæmdastjóri GOS, var viðburðarrík.  Hann var í hópi 9 nýrra golfkennaranema, sem útskrifuðust sem fullgiltir PGA golfkennarar frá Golfkennaraskóla PGA. Síðan tók Hlynur líka þátt í Íslandsmótinu í holukeppni á Leirdalsvelli hjá GKG. Hann vann alla leiki sína í 32 manna undankeppninni þ.e. á móti þeim  Arnari Snæ Hákonarsyni, GR; Magnúsi Lárussyni, GKJ og  Árna Páli Hanssyni, GR, sem líka útskrifaðist frá Golfkennaraskóla PGA (og hlaut m.a. viðurkenningu fyrir hæstu meðaltalseinkunn úr golftækni og tímaseðlum).

Í  8 manna undanúrslitunum vann Hlynur Geir Hjartarson, Guðjón Henning Hilmarsson, GKG, 3&2 og svo í 4 manna úrslitum vann Hlynur Geir, Birgi Leif Hafþórsson, GKG 1&0, sem einnig útskrifaðist úr Golfkennaraskóla PGA.   Hlynur Geir gaf sér tíma í smá viðtal við Golf 1, að loknu Íslandsmótinu í holukeppni:

Golf 1: Til hamingju með útskriftina sem golfkennari.  Hvernig er að vera orðinn fullgiltur PGA kennari? 

Hlynur Geir: Það er bara stórkostlegt. Það er léttir að vera búinn. Þetta er búið að vera keyrsla í smá tíma. Gaman að klára þetta.

Golf 1: Nú hlýtur þú verðlaun fyrir besta einkakennsluprófið. Hvernig fórstu að því?

Hlynur Geir: Þetta var mikið stress og ekki sjálfgefið að klára prófið.  Það var erfitt að leysa verkefnið með prófdómara yfir sér, en það tókst og ég var mjög ánægður. En mér leið líka vel þegar prófið var búið.

Golf 1:   Þú sigraðir Birgi Leif í 4 manna úrslitum á Íslandsmótinu í holukeppni – hvað var það sem réði úrslitum í þeirri viðureign, hvað varð til þess að þú sigraðir? 

Hlynur Geir: Mér leið nokkuð vel í leiknum – ég hugsaði bara um að spila mitt golf. Það er gott að spila við Bigga, hann er góður strákur. Hann gerði bara smá mistök á síðustu holu og á 18. átti átti ég líklega mitt besta högg á ferlinum. Síðan var þetta bara búið á 18.  Við spiluðum báðir gott golf; hann er góður holukeppnismaður. Hann missti aldrei dampinnn, annað en ég sem var orðinn þreyttur á síðustu 4 holunum.

Golf 1: Var það þreytan sem olli tapinu í úrslitaviðureigninni gegn Haraldi Franklín?

Hlynur Geir: Ja, ég var þrælsprækur fyrri 9 en þetta var orðið erfitt á seinni 9.  Ég var mikið að „pull“-a til vinstri.  Ég sló t.d. útaf á 16., sem var týpískt þreytuhögg.  En það var ekki bara það. Haraldur Franklín spilaði aðeins betur.  Maður getur aldrei gert annað en sitt besta.

Golf 1: Þú hefir áður orðið Íslandsmeistari í holukeppni, er það ekki?

Hlynur Geir: Jú, ég varð Íslandsmeistari í holukeppni 2008.

Golf 1: Ætlar þú að taka þátt í Íslandsmótinu í höggleik?

Hlynur Geir: Já, ég ætla að vera með á Hellu.