Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 28. 2012 | 21:15

Hlynur Geir Hjartarson varð í 3. sæti á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar 2012 – Viðtal

Hlynur Geir Hjartarson, golfkennari, fararstjóri og framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss tók þátt í 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar nú um helgina og hafnaði í 3. sæti.  Hann var samtals á +2 yfir pari þ.e. 146 höggum (75 71) og varð sem segir í 3. sæti í karlaflokki og 4. sæti yfir mótið í heild af 121, sem luku keppni.

Hlynur Geir Hjartarson, golfkennari og framkvæmdastjóri GOS. Mynd: Golf 1.

Á betri hring sínum (þeim sem ekki var spilaður í roki) fékk Hlynur 3 skolla á 3. (Bergvíkina), 12. og 13. brautina en fór síðan í fuglagírinn á síðustu 5 holunum þar sem hann fékk 4 fugla (á 14., 15., 16. og 18. holunum).

Glæsilegt hjá Hlyn Geir, sem er störfum hlaðinn hjá GOS og Heimsferðum!!!

Golf 1 tók stutt viðtal við Hlyn Geir að móti loknu:

Golf 1: Hlynur ertu ánægður með árangurinn á 1. mótinu á Eimskipsmótaröðinni?

Hlynur Geir: Já, bara mjög ánægður. Mér hefur ekkert gengið mjög vel í Leirunni á undanförnum árum.

Golf 1: Nú gekk þér vel þú varst í verðlaunasæti. Hvað var frábrugðið núna?

Hlynur Geir: Það var bara meiri yfirvegun, völlurinn flottur og ég naut þess að spila golf.  Maður þarf að vera aðeins þolinmóður.

Golf 1: Ætlar þú að taka þátt í öllum mótum mótaraðarinnar í sumar?

Hlynur Geir: Já ég stefni á það. Maður stefnir á það þó maður viti ekkert hvað gerist í lífinu. Ég hugsa bara stíft til Vestmannaeyja núna. En það er best að taka bara eitt skref í einu.

Golf 1: Hvernig finnst þér breiddin á Eimskipsmótaröðinni núna – að þínu mati eru keppinautarnir sterkir?

Hlynur Geir:  Já, þetta er að verða sterkara – það er meiri flóra af hugsanlegum sigurvegurum. Hér áður fyrr þegar ég var að byrja voru alltaf sömu 2-3 nöfnin í verðalunasætum, nú eru það allt að 20-30 spilarar, sem hugsanlega gætu unnið mótið.

Golf 1: Hvernig leið þér eftir að þú fékkst 3. skollann á 13. braut (á seinni hringnum) – hvað hugsaðirðu?

Hlynur Geir:  Ég þrípúttaði á 12.  Ég átti mjög gott innáhögg á 13. greenið en það fór yfir. Eftir skollann þarna hugsaði ég bara: „farðu nú að rífa þig upp“… og svo fór þetta að detta.

Golf 1: Að lokum: hvað gerðist á síðustu 5 holunum hjá þér, þú settir niður hvern fuglinn á fætur öðrum?

Hlynur Geir:   Ég fór að einbeita mér að því að finna punktinn í púttunum og láta kúluna rúlla yfir þennan punkt. Þá datt allt hjá mér eftir það  nema ég  krækti fyrir á 17. í erfiðu 2. metra vinkilpútti (Hlynur Geir fékk par þar).